5. nóvember 2017


Mótlæti er ofnotað hugtak.
Öll vandamálin sem við glímum við, allar óvæntu hindranirnar á beinu og greiðu leiðinni sem við höfðum séð fyrir okkur og öll neikvæðnin sem við mætum skilgreinum við sem mótlæti.
Leiðin í átt að markmiðum þínum og áfangastaðnum er ekki bein og greið. Hún á að vera erfið og krefjast þess að þú takir áhættur og færir fórnir.


“Ef þú ert ekki tilbúinn að taka áhættur muntu ekki þroska og rækta sjálfan þig.
Ef þú ræktar ekki sjálfan þig muntu ekki verða besta útgáfan af sjálfum þér.
Ef þú ert ekki besta útgáfan af sjálfum þér verður þú aldrei hamingjusamur.
Ef þú finnur ekki hamingjuna hver er þá tilgangur lífsins?”


Að taka áhættur og færa fórnir er undir hverjum og einum komið.
Að rækta og þróa sjálfan sig og þar með verða besta mögulega útgáfan af sjálfum sér er persónuleg skylda hvers og eins.

Það dýrmætasta sem við eigum hins vegar er meðvitundin um að örlögin eru í okkar eigin höndum og það er undir okkur sjálfum komið að gera allt sem í valdi okkar stendur til að hafa stjórn á útkomunni í eigin lífi.
Allar þær hindranir sem á vegi okkar verða, öll neikvæðnin sem við mætum og vandamálin sem við glímum við eru ekki mótlæti heldur lykilhluti af ferlinu.
,,Hvernig skilgreini ég mótlæti?" er spurning sem ég tel að hver og einn verði að spyrja sjálfan sig. Eru það þættir sem við getum haft áhrif á og stjórnað? Eða eru það hlutir sem við þurfum að sætta okkur við?

Mín skilgreining á því að mæta mótlæti er að þurfa að sætta sig við orðinn hlut, endurskilgreina markmið sín og tilgang og þannig að færa örlögin aftur í sínar hendur. Að verða þræll fortíðarinnar og að leyfa erfiðleikum gærdagsins að fylgja sér inn í daginn í dag er böl sem ég óska engum.


Ég var 19 ára þegar ég fékk skilaboð um ég þyrfti að leggja fótboltaskóna á hilluna vegna hjartasjúkdóms. Ég þurfti þá að snúa töpuðum leik mér í hag, snúa vörn í sókn og sækja til sigurs. Það var þá sem að ég fyllilega gerði mér grein fyrir því hve mikilvægt það er að maður átti sig á því hverju maður hefur stjórn á.
Ég hafði vissulega litla sem enga stjórn á heilsu hjartans, en ég hafði fulla stjórn á því hvernig ég brást við þessum tíðindum. Ég tók þessu af æðruleysi og snéri mér að þjálfun.
Þar fékk ég enn skýrari mynd af þessu.



Við búum flest við aðstæður þar sem að tækifærin eru á hverri hendi. Börn á Íslandi geta lagt stund á fjöldan allan af tómstundum og fengið framúrskarandi þjálfun og kennslu í hverju því sem þau kjósa að taka sér fyrir hendur.
Eftir tvö ár af þjálfun við bestu mögulegu aðstæður í grasrótarstarfinu á Íslandi, þar sem flest vandamálin voru hvort barnið yrði í A eða B liði á næsta móti, þurfti ég á á nýju umhverfi að halda.
Ég fluttist þá til Kólumbíu þar sem ég bjó og þjálfaði í fátækrahverfinu Ciudad Bolívar í Bogotá. Hverfið er umráðasvæði FARC hryðjuverkasveitarinnar og eitt alræmdasta glæpahverfi Suður Ameríku.

Fíkniefni, glæpir og slagsmál eru allt saman hluti af daglegu lífi barnanna sem þarna búa.
Þau hafa enga stjórn á þeim aðstæðum sem þau fæddust inn í. Þau hafa enga stjórn á skortinum sem þau lifa við og hættunum sem leynast á hverju götuhorni.
En það var alveg sama hversu mörgum börnum ég kynntist í þjálfuninni, þau voru öll meðvituð um eitt: Þau ætluðu að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að bjarga fjölskyldum sínum úr fátækt og koma þeim úr þessum ömurlegu aðstæðum.
Möguleikarnir voru einungis tveir:
1. Með því að gerast fótboltastjörnur sem þýddi að þau yrðu að verja tíu til tólf klukkustundum af fótboltaþjálfun úti á velli hvern einasta dag. Þau mættu aldrei nokkurn tímann missa trúna á því að láta drauminn rætast því uppgjöfin og vantrúin neyddi þau í möguleika tvö.
2. Með því að ganga í gengið, selja fíkniefni og ræna. Það voru skammtímalausnir þar sem þar voru í rauninni einungis tveir áfangastaðir: Dánarbeðið langt fyrir aldur fram eða fangelsið (þar sem sömu örlög biðu þeirra líklegast).


Það er ansi súrrealískt að fara úr því að sannfæra foreldra á Seltjarnarnesi um að barnið þeirra þurfi að leggja harðar að sér á æfingum til að komast í A-liðið yfir í það að slá jónu úr höndunum á tíu ára iðkenda þínum í Ciudad Bolívar. En þetta setti hlutina í samhengi.
Það sem ég lærði í Kólumbíu af þessum krökkum er að það er alveg sama inn í hvaða aðstæður þú fæðist, hvað þú ert með mikið á milli handanna og hversu mörg vandamálin eru.
Á meðan að þú gerir þér grein fyrir því að örlögin eru í þínum höndum...
Á meðan þú sleppir því að lista upp vandamálunum og hindrununum sem á vegi þínum verða sem mótlæti og skilgreinir þessa þætti frekar sem mikilvæg skref þroskaferilsins...
Um leið og þú leggur allt í sölurnar, tekur áhættur og færir fórnir til að verða besta útgáfan af sjálfum þér…

...Þá finnuru hamingjuna.