28. maí 2015

Framfarir

Í dag tilkynnti EA Sports að í fyrsta skipti munu FIFA leikirnir vinsælu bjóða upp á möguleikann að spila með kvennalandslið. Í pistli mínum "Þú sparkar eins og stelpa" sem ég skrifaði 23.febrúar fyrr á þessu ári benti ég á misræmið í kvenna og karla fótbolta og skortinn á fyrirmyndum kvenna megin.
Þar skrifaði ég:

"Utan æfingatíma horfa strákar á hetjurnar sínar spila fótbolta, fara í FIFA og spila með hetjurnar í tölvunni og fara svo út í fótbolta og leika þessar sömu hetjur. Stelpurnar geta varla horft á stelpur spila fótbolta í sjónvarpi og því er skortur á kvenkyns fyrirmyndum og hetjum. Þær geta ekki stýrt þeim í tölvunni, þar sem að það er ekki til kvenkyns fótbolta leikur, og því fara þær ekki út á völl að leika hetjurnar sínar þar sem að þær eiga engar kvenkyns hetjur. 
Tölvuleikir þar sem þú getur stýrt þessum stórstjörnum verður til þess að þú byrjar að idolisera hetjurnar á tölvuskjánum. Það er mjög langsótt að EA Sports muni bjóða upp á kvennabolta í FIFA leikjunum og því er varla hægt að sjá fram á breytingar í þessum efnum." 


Eins og ég skrifaði þá sá ég ekki fram á breytingar í þessum efnum og því fagna ég þeim innilega. Með því að bjóða upp á þann möguleika að stýra kvenkyns fótboltastelpum á tölvuskjánum má sjá fram á það að stelpur og strákar á öllum aldri geta nú í auknu mæli eignast kvenkyns fyrirmyndir í fótbolta. En er þetta skref fullnægjandi?

Það má margt fara miklu miklu betur. Til að mynda vil ég benda á það að Dagný Brynjarsdóttir varð á dögunum þýskur deildarmeistari með liði sínu Bayern Munchen. Þýska deildin er talin ein sú sterkasta í heiminum, en þýsk lið eru sigursælust allra liða í Meistaradeild Evrópu kvenna megin með sjö titla.
Ég spurði stelpurnar sem að ég er að þjálfa hvort að þær vissu hver Dagný Brynjardóttir væri. Ég er að þjálfa 35 stelpur á aldrinum 8-12 ára og ekki ein þeirra gat svarað þeirri spurningu. Í sömu andrá spurði ég þær hvort þær vissu hver Alfreð Finnbogason væri. Þær gátu svarað því auðveldlega og sögðu mér hvar hann spilaði og hvar hann hafði spilað þegar hann lék á Íslandi.

Hvernig stendur á því að þegar að íslensk stelpa sem að vinnur stærsta deildarmeistaratitil sem í boði er í Evrópu sé ekki fyrirmynd allra ungra fótboltastelpna á Íslandi?



Magnús Örn Helgason samstarfsmaður minn hjá Gróttu ritaði pistilinn "Foreldrar í feluleik" fyrr í mánuðinum þar sem að hann benti á það að rót vandans og misræmisins milli stúlkna og stráka í fótbolta væri heima fyrir. Áhugi foreldra er hreinlega ekki jafn mikill stráka og stelpu megin. Ég tek heilshugar undir þessi orð Magnúsar en þetta er ekki einungis vandamál í fótboltanum, heldur í boltaíþróttum almennt tel ég.

Nú þegar að stelpurnar mæta loksins í FIFA 16 þá skora ég á foreldra að kaupa leikinn fyrir dætur sínar og leyfa þeim að eignast kvenkyns fyrirmyndir á tölvuskjánum.
Ég skora á íslenskar sportstöðvar að sýna fleiri leiki í íslenska kvennafótboltanum og á fjölmiðla almennt um að auka umfjöllun um kvennaknattspyrnu. Það eru vissulega enginn Pepsi Marka þáttur í lok hverrar umferðar í kvennaboltanum en ég skora á sportstöðvarnar að sýna að lágmarki markasyrpu hverrar umferðar.

Stelpurnar eru mættar á tölvuskjáinn og það væri frábært að sjá meira af þeim í sjónvarpinu, til þess eins að næst þegar að íslensk stelpa vinnur stærsta deildarmeistaratitil sem í boði er þá verður nafn hennar á vörum allra ungra fótboltastelpna.

Í lok síðustu æfingar í 5. flokki kvenna sýndi ég þeim ótrúlegt mark í leik hjá kvennaliði Manchester City. Það þurfti ekki nema eitt video og þær halda nú allar með kvennaliði Manchester City, Sigga Helga til mikillar ánægju. Það þarf ekki nema eitt video til þess að áhuginn kvikni - hvað ætli bætt umfjöllun, töluleikjaspilun og reglulegt sjónvarpsáhorf geri?



Engin ummæli:

Skrifa ummæli