26. apríl 2015

Plan A

Grunnskóli frá 6-13 ára.
Gagnfræðiskóli frá 13-16 ára.
Menntaskóli frá 16-20 ára.
Bs gráða frá háskóla fyrir 23 ára aldurinn.
Masters gráða fyrir 25 ára aldurinn.
Fá góða fasta vinnu og stofna fjölskyldu.


Þetta er nokkurn veginn 30 ára uppskrift að vel heppnuðum og vel gefnum einstakling í nútíma samfélaginu. Einstaklingur sem stenst allar þær kröfur sem að samfélagið setur á hann í dag. Einstaklingur sem smell passar inn í heiminn eins og hann á að vera. En þá spyr maður sig, hvað með hina? Hvað með alla þá hringlaga einstaklinga sem með engu móti passa inn í þennan þríhyrninglsaga heim. Allir þeir sem einfaldlega passa ekki inn í skólakerfið og finna sig ekki með engu móti í rútíneraðri tilverunni. 
Eins og ég sagði í síðasta pistli mínum er ég gífurlega þakklátur fyrir skólakerfið hér á Íslandi og alla þá fjölmörgu námsmöguleika sem í boði eru, en þetta kerfi hentaði mér líka mjög vel. Ég átti virkilega góða skólagöngu og ég naut mín virkilega vel og fékk tækifæri til þess að blómstra á menntaveginum. En það gera alls ekki allir. 

Ég var í sundi síðastliðinn laugardag og átti þar samræður við föður 18 ára gamals einstaklings. Hann sagði mér það að hann væri orðinn úrræðalaus vegna áhugaleysis sonar síns í skólanum. Strákurinn væri bara alveg við það að gefast upp og að staðan væri orðin það slæm að jafnvel þó að strákurinn mætti í skólann þá væri afköstin engin og hann sæi ekki fram á það að ná neinum einingum þetta árið. Af mörgum eru þeir sem ekki finna sig í kerfinu, líkt og þessi strákur, taldir haugar og aumingjar. Þeir þurfi bara að rífa sig upp og að byrja að læra. Málið er hins vegar ekki svo einfalt. Ef að strákurinn finnur sig ekki með neinu móti í skólanum og að afköstin eru ekki nein, hver er þá tilgangurinn fyrir því að mæta í skólann? Er það til þess að uppfylla þær fjölmörgu kröfur sem að samfélagið setur á fólk? Að ef að menn klári ekki stúdentsprófið á réttum tíma eða velji sér það að fara aðra leið en "skóla leiðina", þá eru þeir einfaldlega haugar. Ég er allaveganna ekki á því.

Það er einstaklingsbundið hvar áhugahvötin liggur hjá hverjum og einum. Sumir hafa þvílíkan áhuga á íþróttum, aðrir námi og margir tónlist svo eitthvað sé nefnt. Það þarf að leyfa öllum að þróa hæfileika sína eftir áhuganum. Lykillinn að árangri er að gera það sem þú elskar að gera og gefast ekki upp þrátt fyrir að á móti blási. Svo lengi sem þú ert að gera það sem að þú hefur áhuga á að gera þá áttu möguleika á því að skara fram úr í því. 18 ára einstaklingur sem að hefur ekki nokkurn áhuga á því að vera í skóla á að mínu mati að eyða þeim tíma sem að hann eyðir í "zombie- mode" í skólanum í það að þroska og þróa áhugasvið sitt og sérhæfa sig í áhugamálinu sínu. 

Skólinn er ekki eini staðurinn sem að fólk getur sótt sér menntun. Framtíð og viðhorf í garð einstaklinga á ekki að velta á því hvaðan þeir útskrifast eða hvernig þeim gekk í skólanum.
Ég mæli eindregið með því að þú skoðir myndbandið hér að neðan. Þetta myndband hafði virkilega mikil áhrif á mig og skoðanir mínar og kveikti pælingu sem setið hefur föst í hausnum á mér. 



Uppskriftin sem ég nefndi hér í byrjun er alls ekki fullkomin uppskrift að heilsteyptum einstakling. Heilsteypur einstaklingur er sá sem eyðir öllum sínum tíma í það að þróa sig og þroska á sínu eigin áhugasviði. Það þarf ekki endilega að vera með 19 ára skólagöngu. Hver þarf bara að fara sína leið og samfélagið þarf að bera virðingu fyrir því að það er engin leið réttari en önnur. 

Ég kem úr fótboltaumhverfinu þar sem mörgum dreymir um það á unga aldri að hætta í skóla og að einbeita sér af fullum krafti við fótboltann til þess seinna meir að eiga möguleika á því að geta skapað sér atvinnu af því að gera það sem maður elskar að gera, að spila fótbolta. Ég var með þessa hugmynd í hausnum á sínum tíma en gugnaði á þessu þar sem að þetta var ekki viðurkennt og kröfurnar frá foreldrunum og samfélaginu voru þær að fara í menntaskóla.
En afhverju þurfa einstaklingar sem vita nákvæmlega hvað þeir vilja gera við líf sitt og tíma sinn og að áfangastaðurinn sem að þeir leitast eftir því að enda á krefst ekki stúdentsprófs, að ganga í skóla. Það er alltaf talað um: ,,En hvað ef þú meiðist illa?" ,,Þú verður að hafa plan B" ofl. En afhverju?

Will Smith sagði eitt sinn : 
“There's no reason to have a plan B because it distracts from plan A.”

Ég tek undir þessi orð hans heilshugar. Mín skoðun er sú að einstaklingar eiga að nota allan sinn kraft og allan þann tíma sem þeir hafa á höndum sér í það að leita leiða og vinna í því að verða eins góður og þeir mögulega getur orðið í því sem þeir vilja verða góðir í. Einbeita sér að plani A. Spurðu sjálfan þig: ,,Hvað er mitt plan A?"

Hjá mörgum krefst plan A þess að ljúka skóla og fara þessa leið sem að ég nefndi í upphafi pistilsins sem er gott og blessað. Hjá öðrum krefst plan A einfaldlega ekki þess að fara í skóla. Hvers vegna velur sá einstaklingur sér þá það að eyða tíma sínum í skólanum? Er það til þess að uppfylla þær kröfur og væntingar sem að samfélagið setur á einstaklinga og að þóknast einhverjum öðrum en sjálfum sér eða er hann að fylgja eigin sannfæringu?



Það sem skiptir þó mestu máli er það að þú hafir trú á plani A. Að þú hafir trú á því að þú getir áorkað því sem að þig þyrstir í. Ef að þú hefur ekki trú á sjálfum þér og ef að þú sérð þig ekki fyrir þér á þeim áfangastað sem að þú vilt enda á, afhverju ætti þá einhver annar að gera það? Afhverju ætti einhver að taka þér alvarlega og hafa trú að þér ef að þú hefur það ekki sjálfur?

Það að lenda á lokuðum dyrum í lífinu leiðir oftar en ekki til þess að þú finnur þér nýjar dyr sem bjóða upp á ótalmarga nýja möguleika. Listinn af því fólki sem missteig sig í fyrstu atrennu en gafst ekki upp er mjög langur, en hér má finna skemmtilega samantekt af einstaklingum sem að flestir ættu að þekkja.

Svar mitt til föðursins í sundlauginni er það sama og ég segi til allra þeirra foreldra sem upplifa vonbrigða tilfinningu þegar að börn þeirra fara út af þeirri leið sem ég nefndi hér í byrjun: ,,Leyfðu honum að gera það sem honum langar að gera og það sem að hann hefur áhuga á, hvort sem það er í skólanum eða ekki. Sýndu honum ótrauðan stuðning og láttu hann trúa á sjálfan sig og á það sem að hann er að gera og hann mun á endanum blómstra á því sviði sem að hann hefur áhuga á og verða hamingjusamur.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli