9. desember 2015

Samskipti

Að ferðast er það lærdómsríkasta sem ég hef gert. Að fá tækifæri til þess að sjá heiminn frá öðrum sjónarhornum en þú hefur gert allt þitt líf og að víkka sjóndeildarhringinn er öllum hollt.
Á ferðalagi mínu síðustu tvo mánuði hef ég lært mikið, ekki bara um þá staði sem ég hef heimsótt, heldur einna helst hef ég kynnst sjálfum mér sem og lífinu eins og það leggur sig. 


Margar spurningar skjótast upp í hugann og maður reynir eftir bestu getu að finna svör við þeim. Maður byrjar að skilgreina sjálfan sig.
Fyrir hvað stend ég?
Hver eru gildi mín í lífinu? 
Hvað er það sem virkilega skiptir mig máli? 
Hver er tilgangur lífs míns?"

Ég tel að það eru alltof fáir sem geta svarað þessum spurningum með sannfæringu. Alltof fáir geta skilgreint sjálfan sig en á sama tíma er ekki vandamál að skilgreina aðra. Í mínu tilviki hafði þroskaferlið staðnað og ég var að einhverju leyti fastur í "Groundhog day" rútínu og átti ég erfiðleikum með að skilgreina sjálfan mig. Það var þá sem ég ákvað að kúpla mig 100% út úr þessari rútínu og leita leiða til, í fyrsta lagi, að spurja mig þeirra spurninga sem höfðu ekki skotist upp í huga minn þá, og í örðu lagi, að finna svörin við þeim.

Einvera er öllum holl og þá sérstaklega þegar hún er í aðstæðum sem krefjast þess að þú brjótist út úr þægindarammanum. Ég kaus það að ferðast til Kólumbíu og eyða tíma í aðstæðum sem eru eins fjarri þeim sem ég ólst upp í og hugsast getur. Ég talaði enga spænsku, þrátt fyrir nokkuð dapran námsferil í tungumálinu og hér talar enginn ensku svo kröfurnar voru miklar.

Þá fyrst kynntist ég því að samskipti í þeim heim sem við lifum í eru skammt á veg komin eða öllu heldur hefur afturförin orðið talsvert mikil.
Mannfólkið tjáir sig á ólíkan máta með mismunandi tungumálum og víðsvegar um heiminn eru töluð um það bil 6500 tungumál. Sjálfur tala ég 3 tungumál, sem eru 0,046% af þeim tungumálum sem listuð eru. En það þýðir ekki að ég geti ekki átt í samskiptum við restina. 
Við eigum eitt sameiginlegt tjáningarform sem virðist hafa dofnað með tímanum og þeirri gífurlega þróun sem hefur átt sér stað. Tjáningarform sem án nokkurs vafa er æðra öðrum.
Allir þeir sem fæðast í þennan heim geta skilyrðislaust bæði skilið og tjáð sig með þessu formi, en alltof fáir gera það þar sem að það gleymist í því mikla lífsgæðakapphlaupi sem á sér stað í okkar nútíma samfélagi. Á meðan fólk er of upptekið af því að skilgreina aðra og að passa uppa ímynd sína þá dofnar þetta meðfædda tjáningaform.


Þetta alheims tjániningarform, sem er því miður orðið alltof sjaldgæft, byggir á heiðarleika og hreinskilni og krefst ekki orða. Það er skortur á þessum tveimur grundvallar gildum í nútíma samskiptum. Orð eru einungis ætluð til þess að einfalda okkur tjáninguna á þessum gildum, en með tímanum hafa þau flækt einfaldleikan sem felst í þeim. Það er of oft sem að orð eru valin til þess að þóknast öðrum. Að segja það sem aðrir vilja heyra, að segja það sem á að segja, til þess að vera samþykktur. Við förum á nokkurs konar "auto correct" stillingu og segjum það sem að er "réttast". 

Þegar þú ert í aðstæðum þar sem að þú getur ekki notast við orðaforða þarftu að tjá þig á annan máta. Með því tjáningarformi sem allir búa yfir, því sem ég er að tala um. Með tilfinningum. Með kærleika, hatri, gleði, reiði, depurð, samkennd o.s.frv. Og þessar tilfinningar eru alltaf hreinskilnar og heiðarlegar. Þær koma að innan og enginn getur skilgreint þig fyrir þær nema þú sjálfur. Þær eru tærasta og elsta tjáningarform sem til er. 

Í nútíma samskiptum er skortur á þessum gildum þar sem að mestur hluti samskipta fer fram í gegnum samskiptamiðla, þar sem að hvert orð er ritskoðað og "auto correct-að". Hver kannast ekki við það að skrifa inn skilaboð 5 sinnum áður en að senda það og velja bestu útgáfuna, og jafnvel sjá eftir því að hafa ekki skrifað hitt frekar en þetta og að bíða svo stressaður eftir svarinu.


Við lifum í heimi þar sem "small talk" er algengasta tjáningarformið og flestir keppast við það að heilla aðra sem mest. Að vera vel liðinn af öðrum. Listin að hlusta og að læra í gegnum samskipti við aðra hefur fengið að víkja fyrir listinni að dæma og skilgreina.
Spurðu sjálfan þig:
,,Hvað eru síðustu góðu samræður sem ég átti og afhverju?
Hvaða samræður hafa haft mest áhrif á mig í mínu lífi?
Af hverjum hef ég lært mest í gegnum samræður?
Hvenær var ég síðast virkilega trúr eigin tilfinningum og sannfæringu í samskiptum við aðra?" 

Listin að hlusta er dyggð sem að alltof fáir búa yfir í dag. Dalai Lama sagði: 

"When you talk you are only repeating what you already know, but when you listen you might learn something new"

Í samskiptum þurfum við að leitast við að læra. Að þroskast og að þróast. Að spyrja spurninga og að leita að þeim svörum sem virkilega skipta okkur máli. Fyrir mér er það er tilgangur lífsins: Að spyrja spurninga, að dýpka sig, að deila og gefa af sér, að upplifa, að brosa, að hlægja, að njóta og að gleyma sér í því.

Þegar þú leyfir huganum að reika áhyggjulausum og án allra skuldbindinga til tiltekinna hugsanna, án þess að hugsa út í álit annarra, þá ertu á lífi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli