25. mars 2015

Ísland

Mynd: Snorri Björnsson

Ísland er eitt allra fegursta land í heimi. Við erum rúmlega 320.000 manns á eyju úti á miðju Atlantshafi sem er það stór að á hvern ferkílómetra búa einungis 3 einstaklingar. Allir hafa nægt rými og svigrúm og tækifærin eru endalaus. Þrátt fyrir marga kosti landsins verð ég að alltof mikið var við neikvæða umfjöllun í þjóðfélaginu. Fólk finnur sér alltaf nýjar og nýjar ástæður til þess að kvarta og kveina yfir ótal göllum íslenska kerfisins og hvað nágrannaþjóðir okkar hafa það gott samanborið við okkur. Skólakerfið er gallað, maturinn er of dýr, ríkisstjórnin er vanhæf, það er ekki vænlegt að ala upp börn á Íslandi og ég veit ekki hvað og hvað. Það er alltaf einhvern veginn eitthvað að, eitthvað sem vantar og eitthvað sem þarf að breytast og það strax!

Ef að við lítum á heiminn sem einn stóran grunnskólabekk þá er Ísland einn lang fallegasti einstaklingurinn í bekknum. Hann er af dönskum uppruna og ber sig vel. Vel lesinn, sjálfstæður og þokkalegur yfirlitum. Hann kemur úr vel efnaðri fjölskyldu, sem þó hefur á sínum tíma lent í erfiðleikum fjárhagslega. Hann er mjög heilbrigður og hæfileikaríkur og býr yfir mörgum frábærum eiginleikum. Yfir vetrartímann er hann oft mjög þungur í skapinu og dimmt yfir honum en þegar það fer að vora blómstrar þessi einstaklingur og hans bestu hliðar fá að njóta sín. Hann er vinsæll og bekkjarfélögunum finnst hann mjög áhugaverður og spennandi.
Heima fyrir er þessi einstaklingur frekjudós. Kvartar yfir því hvað sessunauturinn hefur það gott. Þessi á þetta og hinn á hitt. Allt sem Íslendingurinn á er einhvern veginn ekki nógu gott, en það sem næsti maður við hliðiná á er frábært. Hann tuðar og tuðar heima fyrir um það að hlutirnir þurfi að breytast og að hann þurfi að eignast eitthvað í líkingu við það sem að maðurinn á næsta borði á og þá væri allt í góðum málum.
Það sem þessi frekjudós, sem situr fremst í stofunni, tekur ekki eftir er það að víðsvegar í skólastofunni horfa margir öfundaraugum á þennan fallega einstakling. Aftarlega í stofunni sitja einstaklingar margir hvejir skítugir og í slitnum fötum. Svo skítugir að það sést varla í andlitið á þeim. Þeir eru sumir hverjir horaðir, hungurmorða og jafnvel illa lyktandi. Bakgrunnur þeirra er að öllu leyti frábrugðinn þeim sem íslenski einstaklingurinn þekkir. Stanslausar fjölskylduerjur margar kynslóðir aftur í tímann, slagsmál heima fyrir og ekki einu sinni aðgangur að hreinu vatni svo dögum skiptir. Þessir einstaklingar búa sumir hverjir við þau lífsskilyrði að þeir geta ekki opinberað þeirra eigin skoðanir þar sem að heima fyrir verða þeir hýddir af ströngum foreldrum sínum. Þeim myndi ekki sinni detta það til hugar að storka í venjum og reglum heimilisins því það gæti þýtt að þeir yrðu hreinlega aflífaðir. Íslendingurinn lítur öðru hvoru aftast í stofuna og sér þessa einstaklinga, finnur til með þeim, en heldur svo áfram sínu ágæta lífi og tautar yfir því hvað lífið gæti verið miklu betra.

Mynd: Snorri Björnsson

Það er svo margt sem við getum verið þakklát fyrir í þessu frábæra landi sem við búum í. Svo ég vitni í upptalningu sem að Samúel Jón Samúelsson birti á Facebook síðu sinni fyrir alls ekki svo löngu:
“Upphituð hús, rafmagn allan sólarhringinn, rúm og sængur, drykkjarvatn úr hverjum krana, heitar laugar og langar heitar sturtur, skólplagnir, holræsakerfi, sorphirðukerfi, gatnakerfi, póstþjónusta, umferðarreglur, aðgangur að læknum og lyfjum, sjúkrahús, menntakerfi, skoðanafrelsi, trúfrelsi, endalaust vöruúrval í verslunum, enginn her, friður, ferðafrelsi. Var einhver að kvarta?”
Vissulega er margt sem að má gera betur þegar að kemur að stjórnarfari landsins. Ég hef ekki reynslu af því að sjá fyrir barni, vera á leigumarkaði, borga reikninga og halda uppi heimili og þar sem að við lifum í velferðarríki þá ætti vissulega að koma til móts við fólkið sem er að koma undir sig fótunum.
Hins vegar megum við ekki gleyma því að þakka fyrir allt það frábæra sem við eigum, öll þau tækifæri sem hér eru í boði og þá fjölmörgu kosti við það að búa hér á landi.
Helsti kosturinn við Ísland að mínu mati er íslenska fólkið. Það hvað við eigum marga hæfileikaríka og vel gefna einstaklinga á öllum sviðum lífsins.
Það er engin tilviljun að íslenskt fólk er að blómstra á heimsvísu hvort sem það er í tónlistaheiminum, íþróttaheiminum eða einhverju öðru.
Við búum við þau forréttindi að hér eru tækifærin endalaus. Börn hafa tækifæri til þess að stunda nokkurn veginn hvaða tómstund sem er og aðstæðurnar og umgjörðin hér á landi eru með þeim hætti að hægt er að verða afburðar góður í hverju því sem maður kýs sér. Námsmöguleikarnir eru ótalmargir hvort sem það er á menntaskóla- eða háskólastigi og þrátt fyrir það að margir vilji meina að skólakerfið á Íslandi sé meingallað, þá er það mun betra en á mörgum stöðum í heiminum og við megum vera þakklát fyrir það. 

Íslenska náttúran og landslagið er töfrum líkast og það er engin tilviljun að mörg þúsund ferðamenn flykkist hingað ár eftir ár einungis til þess að sjá þessa perlu með eigin augum. Of margir Íslendingar taka þessum forréttindum, að búa á einum fegursta stað veraldar, sem sjálfsögðum hlut og njóta því ekki þess besta sem landið hefur upp á að bjóða og eru þess í stað með hugann á einhverjum "hlýrri og exótískari" stöðum. 





Ég er þakklátur fyrir það að geta bloggað um hvað sem ég vil án þess að þessar færslur séu ritskoðaðar. Ég er þakklátur fyrir það að búa í því landi þar sem að jafnrétti kynja er hvað mest í heiminum (Sjá hér). Ég er þakklátur fyrir það að geta leyft mér að hafa mínar eigin trúarskoðanir og opinberað þær án þess að hljóta refsingu fyrir. Ég er þakklátur fyrir það að hafa aldrei þurft að kynnast þjáningum og eyðileggingu stríðs og ofbeldis. Ég er þakklátur fyrir það að búa á landi þar sem að samkynhneigð er viðurkennd. Ég er þakklátur fyrir það að hafa fæðst Íslendingur, hafa alist upp á Íslandi og fengið fullan aðgang að íslenska velferðarkerfinu.

Eins leiðinlegt og veðrið hefur verið nú í vetur (þá sérstaklega fyrir fótboltaþjálfara) þá getum við þakkað fyrir það þar sem að það gerir dagana í logni og sól enn betri og við njótum þeirra enn betur.
Ég er alls ekki að tala niður fólk sem að berst fyrir réttindum sínum hér á landi og vill sjá breytingar, heldur vil ég minna fólk á það sem það á og njóta alls þess besta sem að Ísland hefur upp á að bjóða í stað þess að hugsa um það hvað grasið er alltaf grænna hinum megin við lækinn og hvað nágrannaþjóðirnar í kringum okkur hafa það gott. 
Verum stoltir Íslendingar.

Ég mæli svo eindregið með því að fólk skoði bloggsíðuna hjá góðvini mínum og ljósmyndaranum Snorra Björnssyni. Snorri ferðaðist um landið í vetur og tók ótrúlegar myndir ásamt því að halda úti ferðasögu. Útkoman var stórskemmtileg og hana má sjá hér:

Sjá einnig: 

Mynd: Snorri Björnsson



Engin ummæli:

Skrifa ummæli