21. júlí 2016

Stóru steinarnir

Nú er liðinn ansi langur tími frá því að ég skrifaði pistil hingað inn. Ég hef alltaf verið á leiðinni í það en svo einhvern veginn hefur ekkert orðið úr því. Og það má spegla það yfir á svo margt annað. Ég einhvern veginn ætla að gera eitthvað, en svo verður ekkert úr því. Ég er búinn að vera fastur í venjumynstri sem er svo afkastalítið að tíminn hefur flogið frá og mánuðum seinna er ég enn á leiðinni að gera eitthvað sem ég ætlaði að vera löngu búinn að gera.


Ég held að virkilega margir þekki þetta mynstur. “Refresha” allar veitur á öllum samfélagsmiðlum, aftur og aftur þrátt fyrir að ekkert nýtt sé að koma inn, lesa fréttir og greinar um eitthvað sem einfaldlega kemur lífi manns ekki neitt við. Ég finn mig oft í þeirri hugsun þegar ég er að skoða kannski fimmtánda “MyStory-ið" í röð á Snapchat: ,,Hvað er ég að eyða tímanum í!?”


Ég settist niður í spjall fyrir ekki svo löngu með manni sem hefur opnað augu mín fyrir ansi mörgu og oftar en ekki haft svör á reiðum höndum og við tókum þessa umræðu: Hvað tíminn flýgur alltof hratt og maður kemst alltof sjaldan áfram með hlutina. Í kjölfarið líður manni illa með sjálfan sig og afköstin þar sem tímanum er ekki varið á skynsaman hátt.


Hann sagði mér þá söguna af kennaranum í Frakklandi sem var að kenna viðskiptafræðinemum skilvirka tímastjórnun.
Nemendurnir mættu með skrifblokkirnar, tilbúnir að punkta niður öll þau ráð sem kæmu út úr þessum fróða manni,
Kennarinn labbaði inn, lagði stóran vasa og vatnskönnu á borðið og hellti úr poka fullum af stórum steinum, poka fullum af steinvölum og poka fullum af sandi á borðið og sagði spenntur: ,,Við ætlum að gera tilraun í dag!”


Kennarinn byrjaði á því að raða öllum stóru steinunum í vasann þannig að ekki fleiri komust fyrir. Hann spurði því nemendurna: ,,Er vasinn orðinn fullur?”
Þeir horfðu á vasann og sáu ekki fram á að fleiri steinar kæmust fyrir í honum og svöruðu: ,,Já..”
Kennarinn brosti og sagði: ,,Sjáum til..”
Því næst tók hann upp steinvölurnar og hellti þeim ofan í vasann svo að þær smeygðu sér á milli stærri steinanna og enduðu á botni vasans. Hann spurði því aftur: ,,En núna?”
Þá fóru nemendurnir að átta sig á tilætlunum kennarans og svöruðu: ,,Greinilega ekki..”
,,Hárrétt!” Svaraði kennarinn og tók upp sandpokann og hellti í vasann. Sandurinn smeygði sér á milli stóru steinanna og fyllti upp í bilið á milli þeirra og steinvalanna.
Aftur spurði kennarinn: ,,Er vasinn fullur?”
Nemendurnir svöruðu neitandi.
Kennarinn tók þá upp vatnskönnuna og hellti í vasann þangað til að hann var alveg fullur og vatnið við það að flæða upp úr. Þá spurði hann: ,,Hvað getum við lært af þessari tilraun?”
Einn nemandi svaraði: ,, Alveg sama hversu mikið er að gera hjá okkur og sama hversu þétt dagskráin er, getum við alltaf lagt meira á okkur og aukið við okkur, tekið fleiri fundi og verkefni.”

Kennarinn hristi hausinn. ,,Það er alrangt, “ svaraði hann. ,,Ef við byrjum ekki á því að láta stóru steinana í vasann, passa þeir ekki í hann.”
Nemendurnir þögnuðu og hlustuðu á það sem kennarinn hafði að segja.
,,Hverjir eru stóru steinarnir í lífi þínu? Fjölskyldan? Heilsan? Markmiðin þín? Vinir þínir? Að gera það sem þú elskar? Að standa fyrir einhvern ákveðin málstað? Að slaka á?”


Boðskapur sögunnar er sá að við þurfum að skilgreina það hverjir stóru steinarnir í lífi okkar eru. Við þurfum að forgangsraða þeim og setja þá fyrst í vasann. Ef við byrjum á hlutum sem skipta okkur minna máli og hlutum sem einungis stela tíma frá okkur (steinvölurnar og sandurinn) verður líf okkar uppfullt af ómerkilegum hlutum og tíminn mun fara frá okkur.


Venjurnar eru það sem skiptir mestu máli - þær eru líf okkar. Við erum mótuð af því sem við verjum tíma okkar í.
Eitt er víst. Öll munum við deyja einhvern tímann. Það er því undir okkur komið að láta alla stóru steinanna passa í vasann. Hugum að því sem okkur þykir vænst um og lifum tilgangsríku og afkastamiklu lífi. Verum besta mögulega útgáfan af sjálfum okkur og hættum að eyða tímanum í eitthvað annað.

Að því sögðu vil ég biðja ykkur um að skilgreina stóru steinana í lífi ykkar. Hvað þarf að fara fyrst í vasann? Hvað er þér mikilvægast?





1 ummæli: