7. janúar 2015

Áramótaheit

Gleðilegt nýtt ár!

Árið 2014 var eitthvað það lærdómsríkasta sem ég hef upplifað. Það voru margir frábærir hlutir sem komu fyrir sem og aragrúi af mistökum sem eru ómetanleg. Það er algengur misskilningur að álíta mistök neikvæðum augum. Mistök eru af hinu góða. Þau þýða það að maður hafi prófað nýja hluti, stigið út fyrir þægindarammann og prófað eitthvað nýtt.
Mistök eru ekkert annað en ómetanleg reynsla og maður á að þakka fyrir þau þar sem að maður lærir, þroskast og mótast af þeim.
Sá sem gerir enginn mistök, þorir ekki að takast á við nýjar áskoranir og verður fyrir vikið ekki eins vel í stakk búinn og sá sem gerir þau. Verstu "mistökin" sem maður gerir er að þora ekki að gera mistök.

Ég ákvað í fyrsta skipti að strengja mér áramótaheit sem skorar að einhverju leyti á mig og er krefjandi.
Áramótaheitið mitt var semsagt það að fara ótroðnar slóðir í hverjum mánuði og gera eitthvað sem ég hef aldrei prófað að gera áður.
Ég hef aldrei haldið úti bloggi eða deilt skoðunum mínum og pælingum af einhverju viti með umheiminum og því fannst mér kjörið að byrja árið á því að opna þessa síðu.
Það verður ekkert ákveðið þema eða regla á því hvenær ég skrifa inn á síðuna, heldur skrifa ég bara um það sem mér dettur í hug þegar mér dettur í hug að gera það.

Ég er sannfærður um það að árið 2015 verður frábært og atburðarríkt. Það verður stútfullt af mistökum og tækifærum og maður þarf að taka þeim með opnum örmum.

Ég vona það að árið þitt hafi verið lærdómsríkt og óska þér velfarnaðar á nýju ári!

-Bjarki Már




Engin ummæli:

Skrifa ummæli