11. janúar 2015

Árangur

Eitt af mínum helstu áhugamálum er árangur. Ég hef lengi velt fyrir mér spurningunum "Hvað er árangur?" og "Hvernig nær maður árangri?"
Þessar spurningar hefur æ oftar komið upp í huga mér og hef ég tekist að þróa með mér þá skoðun hvað teljist til árangurs, hver grundvöllur árangurs sé og hvaða þættir skipta sköpum til þess að árangur náist.
Reynsla, skoðanaskipti og leit af svörum (til reyndra og árangursríkra einstaklinga, lestri bóka ofl.) spila stærstan þátt í mótun þessarrar skoðunnar minnar. Ég tel mig ekki vera neinn sérfræðing á þessu sviði, en einhverra hluta vegna er ég haldinn þráhyggju fyrir því að komast að endanlegri niðurstöðu á því hvað veldur árangri.

Spurningin "Hvað er árangur?" er spurning sem ég tel að hver og einn þurfi að svara fyrir sig, hvað hver og einn metur til árangurs. Ein af mínum helstu fyrirmyndum í íþróttaþjálfun, John Wooden, velti þessari spurningu fyrir sér allan sinn feril og skilgreindi árangur eftir bestu getu á þennan hátt:
,, Árangur er hugarró sem orsakast af stolti. Stolti sem þú færð þegar að þú veist að þú gerðir þitt besta til þess að verða eins góður og þú mögulega gast" 
Mér finnst þessi skilgreining vera algjör snilld og tek ég undir hana. Árangur er huglægur, ekki hlutlægur. Hann mælist ekki í titlum, stórum tölum á bankareikning eða flottum bílum. Árangur snýst um þessa persónulegu sigra - að gera sitt allra besta og geta litið stoltur til baka.
"Ég vildi að ég hefði getað gert betur.."
"Ég hefði átt að gera hitt en ekki þetta...."
Þetta eru hugsanir sem að bergmála í hugum þeirra sem ekki ná árangri.

John Wooden var með þetta allt í teskeið

Spurninging "Hvernig nær maður árangri?" er öllu fjölþættari en sú fyrri.
Ég hef reynt eftir bestu getu að velta því fyrir mér hver grundvöllurinn fyrir árangri sé sem og því hvaða þættir þurfi að vera til staðar til þess að árangur náist.

Ég tel að grundvöllurinn fyrir árangri sé "að gera það sem þú elskar að gera". 
Það eru alltof margir sem að finna sér ekki tíma til þess þar sem að aðrir hlutir þvælast fyrir. Settu það sem þú hefur ástríðu fyrir í forgang í lífinu.
Ef þú ert óhamingjusamur/söm á veginum sem þú stendur á í lífinu, hvort sem um ræðir vinnu, nám eða íþróttir - beygðu þá af honum og finndu þér veg sem að liggur að þeim áfangastað sem þú vilt komast á.
Við eigum bara þetta eina líf og það er til einskis að eyða því í að gera hluti sem við höfum ekki ástríðu fyrir því að gera.
Gerðu það sem þú elskar að gera og finndu leið til þess að gera það.
Ef þú hefur ástríðu fyrir því að gera eitthvað þá er það sífellt í huga þér, þú ert tilbúinn að verja miklum tíma í að gera það og þú munt leggja þig allan fram og þar með uppskera árangur.

Grundvöllurinn er fyrsti þátturinn, og síðan fylgja eftir fjórir þættir sem skipta sköpun til þess að árangur náist.
  • Traust og trú á sjálfum sér. - Treystu öllum ákvörðunum sem þú tekur og hafðu trú á öllu sem þú gerir. Ef þú hvorki treystir né trúir því sem að þú ert að gera, hver ætti þá að gera það?
  • Að njóta alls þess sem að þú gerir. - Allt sem þú gerir er reynsla. Þú þarft að njóta hvers augnabliks í lífinu. Að læra af  öllu því slæma og vera þakklátur fyrir allt það góða sem á vegi þínum verður.
  • Að setja sér markmið. - Af eigin reynslu og því sem ég hef lesið mig til um þá spilar markmiðasetning gífurlega stóran þátt í árangri. Að vita hvert þú stefnir og hvernig þú ætlar að komast þangað skiptir öllu máli. Það eru alltof margir sem rúnta um án þess að vita hvert leiðin liggur og þegar að tankurinn tæmist þá hefur leiðin einfaldlega legið í hringi.
    Hugsaðu þér í hvaða sporum þú vilt standa í eftir ár, 5 ár, 10 ár og kortlegðu leiðina.
  • Að bregðast við mótlæti. - Það hvernig einstaklingur bregst við mótlæti skiptir gífurlega miklu máli. Við verðum öll fyrir áföllum á lífsleiðinni og þurfum öll að komast yfir hindranir til þess að komast þangað sem við viljum komast. Sjálfsvorkun er hugarástand sem hindrar það að árangur náist.
    Ég er þakklátur fyrir það mótlæti sem ég hef mætt þar sem að það hefur mótað mig og styrkt mig.Alveg sama hvað kemur fyrir, þá hefur maður alltaf valdið til þess að ákveða það hvernig maður bregst við og tekur á hlutunum. Ég get ekki sagt að ég sé mjög trúaður einstaklingur en hins vegar er mikil viska í æðruleysisbæninni sem hægt er að finna í Biblíunni og hef ég hana bakvið eyrað. Þar segir: ,,Guð - gef mér æðruleysi, til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og visku til þess að greina þar á milli."


Að gera það sem maður elskar að gera skiptir sköpum


-Bjarki Már Ólafsson


Engin ummæli:

Skrifa ummæli