27. janúar 2015

Að hægja á tímanum

Tíminn er furðulegt fyrirbæri. Hann færist á ógnarhraða áfram og það er ómögulegt að stoppa hann eða hægja á honum. Eftir því sem ég verð eldri finnst mér hraðinn vera aukast, dagarnir og vikurnar renna í eitt og tíminn líða alltof hratt. Hvað orskar þennan gífurlega hraða?

Maður er alltaf á leiðinni einhvert og að fara að gera eitthvað. Vera mættur þangað klukkan þetta, fara fyrst þangað og síðan eitthvað annað. Alltaf á hlaupum.
Við gleymum að hægja á okkur, njóta og upplifa. Kröfurnar sem maður bæði setur á sjálfan sig og aðrir setja á mann eru miklar og maður eyðir öllum sínum kröftum í það að uppfylla þessar kröfur.

Við lifum á tímum þar sem  að við erum svo heppin að tæknin er með því móti að við getum fylgst með nánast öllu því sem fer fram í heiminum. Bæði í lífi vina okkar og því sem er að gerast í útlöndum með stanslausum fréttaflutningi. Við fylgjumst svo vel með öllu því sem er í gangi í kringum okkur að við gleymum oft á tíðum að hugsa um það sem að skiptir mestu máli – maður sjálfur.
Með tilkomu forrita eins og Instagram, Snapchat, Facebook, Twitter ofl. deiliru bæði upplifunum og pælingum með netheiminum og fylgist með öllu því sem þú kærir þig um að fylgjast með. Það sem angrar mig hvað mest við þessi forrit er hvað maður er háður þeim. Það er alltof oft sem maður fer í hlutlausann gír, sekkur sér á kaf í áður nefnda samfélagsmiðla og zone-ar út. Maður refreshar öll feed sem maður kemst í og tíminn flýgur áfram á meðan maður horfir á heiminn í gegnum skjáinn. Það er engin furða að tíminn líði eins hratt og raun ber vitni þegar að loksins þegar maður hefur stunda aflögu þá er síminn tekinn upp, eða kveikt á tölvunni, og maður dettur í hlutlausan.

Ég settist niður á bar á föstudagskvöldið með æskuvini mínum sem ég hafði ekki hitt í þó nokkurn tíma. Við spjölluðum saman í góðan tíma áður en að fjórar bandarískar konur settust á næsta borð. Um leið og þær settust tóku þær allar upp símann, sögðu ekki orð við hvor aðra og flettu í gegnum Facebook news feedið og flissuðu öðru hvoru. Einu samskiptin sem þær áttu voru þegar þær voru að bera það undir hvor aðra hvernig hinir og þessir filterar kæmu út á Instagram mynd sem þær voru að setja inn af vinkonuhópnum sem hafði ferðast alla leið til Íslands. Við veltum því þá fyrir okkur hvort þessi ferð þeirra væri einungis til þess að geta sagst hafa komið til Íslands, tekið myndir af sér á Íslandi og þar með gert sjálfan sig meira spennandi eða var þessi ferð hugsuð sem vinkonuferð til þess að upplifa alls hins besta sem Ísland hefur uppá að bjóða?
Það sem gleymist er að líta upp úr símanum, njóta augnabliksins og upplifa.



Fyrir rúmu ári síðan fór ég á kaf í hugleiðslu. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að hugleiðsla getur leitt ekki einungis til betri heilsu og skýrari hugsunar – heldur einnig til bættrar tilfinningagreindar.  Ég settist niður og tók mér 20 mínútur á hverju kvöldi þar sem ég hugleiddi. Þetta gerði ótrúlega mikið fyrir mig og með tímanum jókst tæknin og færnin. Með hugleiðslu náði ég betri einbeittingu, mér leið almennt mun betur, ég tók miklum framförum bæði í skóla og fótboltanum og ég varð talsvert minna stressaður. Í þessar 20 mínútur var ég ekki á leiðinni neitt, ég var ekki að hugsa um neitt. Ég var bara einn með sjálfum mér. Ég kúplaði mig út úr öllu umhverfinu, öllum kröfunum og öllum hraðanum og það fór að hægjast á tímanum. Í stað þess að eyða þessum 20 mínútum í hlutlausa gírnum fyrir framan tölvuskjáinn eða í símanum, höfðu þessar sömu 20 mínútur ótvíræð áhrif á líf mitt.
Fyrir þá sem ekki hafa kynnt sér hugleiðslu þá mæli ég eindregið með því.
http://yoganonymous.com/benefits-of-meditation-10-scientifically-proven-facts/

Við megum ekki  gleyma að rækta hausinn á okkur þar sem að stærsti hluti lífins fer fram þar – í minningum, ímyndunum, vangaveltum og túlkunum.  Ef þú vilt breyta lífi þínu þarftu að byrja á því að gera breytingar á hausnum.

Flestir hljóta að óska sér fleirri sekúndna, mínútna, klukkustunda, daga og ára í þessu lífi. Í stað þess að vera alltaf á hlaupum og á fullri ferð, í stað þess að þurfa alltaf að skoða það sem er í gangi einhvers staðar annars staðar og í stað þess að setja óþarfa kröfur - Stoppum, ræktum okkur og eyðum tíma með sjálfum okkur og hugsunum okkar.
Lítum upp úr símunum og njótum þess sem er í kringum okkur.


- Bjarki Már Ólafsson




1 ummæli: