15. mars 2016

Miði er möguleiki

Knattspyrnuárið 2015 var óumdeilanlega eitt það eftirminnilegasta í sögu íslenskrar knattspyrnu. Frammistaða íslenskra leikmanna í landsliðum og á erlendri grundu var frábær og spurðu forvitnir knattspyrnuspekúlantar sig spurninga sem hafa brunnið á vörum margra síðustu ár: ,,Hvernig getur litla Ísland náð þessum árangri og framleitt þennan fjölda leikmanna í vinsælustu íþrótt í heimi!?”
Margir hafa reynt að finna svarið: Víkingaeðlið, knattspyrnuhallirnar og Lars Lagerbäck eru ástæður sem margir hafa nefnt til sögunnar en almennt er það þó mál manna að vel skipulagt yngri flokka starf sé lykillinn að framgangi íslensku knattspyrnunnar.


Mörg félög hafa á síðustu árum lagt mikinn metnað í yngri flokka starfið og sjá ekki eftir því í dag. Það getur nefnilega borið góðan ávöxt að leggja rækt við unga iðkendur en hér má til dæmis skoða upphæðirnar sem Alfreð Finnbogason hefur fært Fjölni og Breiðablik á síðustu árum.
Ekki nóg með að fjárhagslegur ávinningur geti hlotist af því að fjárfesta í grasrótinni að þá geta skapast hefðir sem eru hverju félagi dýrmætar. Þegar félag eignast sinn fyrsta atvinnumann eða A-landsliðsmann er mun auðveldara að búa til fleiri. Um leið og einn af krökkunum sem hékk úti á sparkvelli alla daga er seldur í atvinnumennsku eða gengur inn á Laugardalsvöll í íslenska landsliðsbúningnum skýst hugsunin: ,,Fyrst hann/hún gat það, þá get ég gert það!” inn í koll þeirra yngri sem koma frá sama félagi og léku sér á þessum sama sparkvelli. Hefðin getur fleytt félögum langt og fyrsta skrefið er að brjóta ísinn.


Ég var forvitinn að vita hvaða félögum hefur tekist að skapa hefð fyrir því að ala upp landsliðsmenn og konur, atvinnumenn og leikmenn sem spila í efstu deild. Við Arnar Þór Axelsson lögðumst í rannsóknarvinnu, skoðuðum hver eru uppeldisfélög allra landsliðsmanna og leikmanna í efstu deild árið 2015 og reyndum að rýna í mynstrið.
FuPrvVY.jpg
Í töflunum hér að neðan telst leikmaður uppalinn hjá því félagi sem hann lék fyrir á aldrinum 10-16 ára. Hafi hann leikið fyrir tvö eða fleiri félög á þeim aldri telst það félag sem hann lék fyrir meirihluta þessarra ára sem uppeldisfélag.


Stjörnumerkt eru þau félög sem hafa aðgang að knattspyrnuhöll. Það er óhætt að segja að hallirnar séu frábær viðbót við aðstöðu íslenskra knattspyrnufélaga en ég tel þó að önnur atriði skipti meira máli.


Í dálknum fjöldi iðkenda eru tölur yfir þann fjölda iðkenda sem var á skrá hjá félaginu árið 2015 frá 8.flokki og upp í 3. flokk. Ekki náðist í öll félög við gerð greinarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, en ég mun uppfæra töfluna ef ég fæ upplýsingar sendar á bjamola@gmail.com.
Í dálknum Pepsi deild eru allir leikmenn sem léku í deildinni sumarið 2015 taldir saman og flokkaðir eftir uppeldisfélögum.
Í dálknum uppaldir eru þeir leikmenn sem spiluðu fyrir uppeldisfélag sitt í efstu deild taldir saman.
Í dálknum Leikmenn 19 ára eða yngri er talinn saman fjöldi þeirra leikmanna sem komu við sögu hjá liðinu síðasta sumar og voru enn gjaldgengir í yngri flokka félagsins. Aldur leikmanna byggist á fæðingarári þeirra þ.e. fæddir 1996 eða síðar.
Í dálkunum A-landslið og yngri landslið eru allir þeir leikmenn taldir saman sem léku A-landsleik og yngri landsliðsleik frá 1. janúar 2015 - 10. mars. 2016. Hafi leikmaður leikið með tveimur eða fleiri landsliðum (til að mynda bæði U-21 og A-landsliði) er hann talinn inn í elsta aldurshóp sem hann lék fyrir. Enginn leikmaður er því tvítalinn.
Upplýsingar eru fengnar af vef KSÍ.


Byrjum á því að skoða tölfræðina karla meginn.
Til að stækka töfluna má smella á myndina.


*Fjölnir á 3 leikmenn í A-landsliði Íslands og 1 leikmann í A-landsliði Bandaríkjanna, Aron Jóhannsson


Taflan varpar ljósi á ýmsar athyglisverðar staðreyndir en þrjú félög vöktu þó sérstakan áhuga þegar hún var skoðuð og langaði mig að kynna mér þau nánar:


Afturelding
Afturelding hefur aldrei leikið í efstu deild karla og býr ekki yfir miklum fjölda iðkenda í yngri flokkum. Þrátt fyrir það hefur Afturelding skilað af sér sjö leikmönnum sem léku í efstu deild á síðasta tímabili. Þá áttu Mosfellingar fjóra stráka í yngri landsliðunum, þar af einn sem leikur á Englandi.  Ég velti fyrir mér hvort að um tilviljun sé að ræða eða hvort félagið væri markvisst að vinna að því að koma sínum eigin leikmönnum á framfæri.
Eftir nánari athugun virðist vera að um seinni ástæðuna er að ræða.
Sumarið 2013 léku 12 leikmenn úr yngri flokka starfi félagsins með meistaraflokknum, þar af þrír yngri en 19 ára.
Sumarið 2014 var unnið eftir sömu heimamanna stefnu og aftur léku 12 uppaldir leikmenn með liðinu þar af átta á 2. flokks aldri eða yngri.
Síðasta sumar léku svo 13 Mosfellingar með bæjarliðinu og þar af sex leikmenn sem enn léku í yngri flokkum félagins.
Í samtali við nafna minn og yfirþjálfara Aftureldingar, Bjarka Má Sverrisson, nefndi hann það svigrúm sem að 2. deildin býður upp á fyrir unga leikmenn sem eina af ástæðunum. Markmið félagsins sé ekki endilega að missa leikmenn í efstu deildar liðin, en það sé hins vegar óumflýjanlegt komist liðið ekki upp úr 2. Deildinni.


Afturelding hefur ekki barist um titla í meistaraflokki síðustu ár og fátt bendir til þess að það verði raunin á næstunni. Hins vegar horfa yngri iðkendur félagsins stoltir á þá Aftureldingarmenn sem í dag leika í efstu deild og innan fárra ára eru líkur á því að Mosfellingar geti bent á leikmann í landsliðstreyjunni á Laugardalsvelli og sagt: ,,Þessi kemur frá okkur!”

Selfoss
Selfyssingar hafa verið stoltir af þeim árangri sem þeir hafa náð síðustu ár í þróun efnilegra leikmanna. Jón Daði Böðvarsson, Guðmundur Þórarinsson og Viðar Örn Kjartansson hafa komið upp í gegnum yngri flokka starf félagsins og skapað knattspyrnudeild Selfoss tekjur. Allir leika þeir erlendis í atvinnumennsku og hafa síðustu ár verið seldir á milli landa fyrir góðar upphæðir en hluti þeirra rennur til uppeldisfélagsins. Þremenningarnir eru rósir í hnappagöt uppeldisstarfs Selfoss, en þá spyr maður sig:
Hvernig stendur á því að félagið átti einungis einn leikmann í efstu deild karla síðasta sumar og engan í yngri landsliðunum?
Í hvað hafa fjármunirnir sem Viðar, Guðmundur og Jón Daði hafa skapað Selfossi farið?


Árið 2009 fór félagið upp í efstu deild eftir sannfærandi tímabil í 1. deildinni þar sem liðið endaði í 1. sæti. Með liðinu léku 14 uppaldir leikmenn, þar af þeir 17 ára gömlu Guðmundur Þórarinsson og Jón Daði Böðvarsson sem báðir voru að spila sitt fyrsta tímabil í meistaraflokki. Í liðinu var enginn útlendingur og augljóslega var lögð áhersla á að skapa stemningu og stuðning á bak við liðið innan bæjarins. Selfoss féll strax úr efstu deildinni en var ekki lengi að koma sér upp um deild aftur, þá með 8 útlendinga innanborðs, Jón Daða, Viðar Örn og níu aðra uppalda Selfyssinga.


Í dag hefur hlutfall uppalinna leikmanna lækkað enn frekar og síðasta sumar, þar sem Selfoss endaði í 10. sæti 1. deildar með 20 stig, léku einungis sjö uppaldir leikmenn með liðinu og sjö erlendir leikmenn.


Maður veltir fyrir sér hvort að Selfyssingar hafa, líkt og alltof mörg félög á Íslandi, hugsað eitt ár fram í tímann síðustu ár og alltaf stefnt að því að komast aftur í efstu deild. Það hefur orðið til þess að fjöldi erlendra leikmanna hefur verið fenginn til að spila með félaginu á kostnað ungra heimamanna og hver hefur ávinningur þess verið?  
Valur
Ég kem úr mikilli Valsara fjölskyldu og ólst upp við það að fylgja liðinu í hverri umferð með pabba mínum. Ein af mínum eftirminnilegastu stundum var árið 2007 þegar ég horfði á Valsmenn lyfta Íslandsmeistarabikarnum með uppalda leikmenn á borð við Sigurbjörn Hreiðarsson, Birki Má Sævarsson, Bjarna Ólaf Eiríksson, Guðmund Stein Hafsteinsson og Gunnar Einarsson innanborðs. Sömuleiðis fylgdist ég með leikmönnum eins og Ara Frey Skúlasyni, Matthíasi Guðmundssyni og Kidda Lár leika með Val og heyrði auk þess sögur af gömlum kempum á borð við Guðna Bergs og Hemma Gunn. Ég var sannfærður um að Valur væri án nokkurs vafa besta lið á Íslandi þegar kæmi að því að framleiða leikmenn.


En nú er öldin önnur. Valur er það félag af úrvalsdeildarliðnum sem átti fæsta leikmenn í deildinni, fjóra talsins. Einungis þrír Valsarar léku fyrir félagið sumarið 2015 og enginn þeirra var 19 ára eða yngri. Valur átti einungis einn leikmann sem lék með yngri landsliðum árið 2015, en það er lægstur fjöldi yngri landsliðsmanna úr efstu deild ásamt Fylki og ÍBV. Á síðasta ári léku þrír Valsarar með A-landsliði karla: Ari Freyr (28 ára), Birkir Már (31 árs) og Haraldur Björnsson (27 ára). Ef fram fer sem horfir mun sú tala einungis minnka eftir því sem áðurnefndir leikmenn eldast.


Því hefur verið haldið fram að ástæða þessarrar þróunar á Hlíðarenda hafi verið töluverður samdráttur í iðkendafjölda yngri flokkanna. Ég bendi á að Valur er með 40 fleiri drengi í yngri flokkum heldur en Afturelding og um 70 fleiri en Víkingur Reykjavík og því tel ég að það þurfi að leita annarra skýringa.


Ástæðuna tel ég vera að leið ungra leikmanna upp í meistaraflokkinn er alltof löng. Efnilegur drengur í yngri flokkum Vals hefur einfaldlega litla sem enga trú á því að hann muni koma til með að leika fyrir aðallið félagsins, þar sem undanfarin ár hefur verið lítil sem engin hefð fyrir því.


Kíkjum því næst á stelpurnar:
Til að stækka töfluna má að smella á myndina.


Þegar tölfræðin er skoðuð má áætla að Valsarar hafi unnið eftir annarri hugmyndafræði í kvennaflokkum samanborið við strákana. Á síðasta ári léku 14 uppaldir leikmenn með liðinu, þar af sjö yngri en 19 ára og þá spiluðu átta Valsstelpur með yngri landsliðunum á síðasta ári. Til samanburðar má skoða Breiðablik sem trónir á toppi listans bæði karla- og kvennameginn og því veltir maður fyrir sér hvort að þar sé lögð áhersla á að samræma starfið í karla- og kvennaboltanum.
  
Þegar nánar er rýnt í gögnin vekja tvö félög sérstakan áhuga höfundar:


Fjölnir
Í Grafarvoginum æfa 150 stelpur fótbolta í yngri flokkum Fjölnis. Átta leikmenn sem ólust upp í félaginu léku í efstu deild árið 2015, einn leikmaður spilaði með A-landsliðinu og fjórir í yngri landsliðum. Eins og sjá mér hér er þetta engin tilviljun. Metnaður og skipulag eru einkennandi fyrir liðið þar sem að markmiðin eru skýr og allir sem stefna í sömu átt. Fjölnir réð nýverið heimamann í stjórastólinn til að stýra þessu verkefni og taka það enn lengra. Ef að líkum lætur og uppbyggingin heldur áfram má búast við því að fjöldi Fjölnisstúlkna í landsliðum og í efstu deild muni koma til með að aukast á næstu árum. Liðið lék í 1. deild kvenna á síðasta tímabili og af þeim 25 leikmönnum sem komu við sögu hjá Fjölni var 21 úr Grafarvoginum þar, af 13 sem voru 19 ára eða yngri!


Tölfræðin er góð og fær Fjölnir gott hrós fyrir það starf sem hefur verið unnið síðustu ár. Vissulega er Grafarvogur gríðarstórt hverfi en knattspyrnudeild Fjölnis glímir við það „vandamál” að margar öflugur deildir starfa innan félagsins, að ógleymdu íshokkífélaginu Birninum, og því dreifast börnin í hverfinu víða.

KFR
,,Knattspyrnufélag Rangæinga er ungt félag á landsvísu, stofnað 1997 af hópi manna sem taldi brýna þörf á að samræma knattspyrnuiðkun í Rangárþingi.” (https://is.wikipedia.org/wiki/K.F.R.)
Í dag, 19 árum síðar, stendur félagið að sex leikmönnum í efstu deild kvenna og tveimur A-landsliðskonum!


Þegar KFR var stofnað var Dagný Brynjarsdóttir sex ára gömul og hóf hún æfingar með félaginu stuttu síðar. Ekki voru margar stelpur í fótbolta í Rangársýslu og því æfði Dagný með strákunum og gaf þeim ekkert eftir, en eins og sjá má hér var hún meðal annars fyrirliði 5. flokks karla.
Í dag er Dagný án vafa einn besti leikmaður Íslands og hefur árangur hennar eflaust haft áhrif á aðrar stelpur úr sýslunni. ,,Fyrst hún gat það, þá get ég það” er hugsunarháttur sem margar stelpur í yngri flokkum KFR tileinka sér snemma og með fyrirmyndum á borð við Dagnýju og nú Hrafnhildi Hauksdóttur sem nýverið lék sína fyrstu A-landsliðsleiki má eflaust eiga von á enn meiru frá Rangæingum. Dagný hefur skapað hefð.
a26a802f-9b9e-4d75-97ae-5e77366e6e4b_L.jpg
Að lokum langar mig að varpa fram áhugaverðri tölfræði um aldur leikmanna þegar þeir leika sinn fyrsta meistaraflokksleik. Við rýndum í alla þá leikmenn sem léku landsleik frá 1. janúar 2015 - 10. mars 2016 og skoðuðum þetta nánar. Tölurnar tala sínu máli og við lítum á þær hér:
Aldur leikmanna byggir á ári en ekki fæðingardegi.
Til að stækka töflurnar má smella á myndirnar.


Hér má sjá A-landslið kvenna:
Hér má svo sjá A-landslið karla:

Hvenær á að gefa ungum leikmönnum tækifæri með meistaraflokki? Þessi umræða kemur upp á hverju sumri. Klisjan ,,Þetta er ekki spurning um aldur, heldur getu” er algeng þegar spurningin er borin fram. Hins vegar get ég ekki verið sammála henni. Þetta er snýst um ,,potential.” (Höfundur fann ekki nægilega góða íslenska þýðingu á þessu orði. Magnús Örn Helgason yfirþjálfari yngri flokka hjá Gróttu lagði hins vegar orð í belg og stakk upp á nýyrðinu „möguleikaríkur” í þessu samhengi, í ætt við að vera hæfileikaríkur).


Það er erfitt að ímynda sér að 15 ára Rúnar Már hafi haft mikil áhrif á gengi Tindastóls eða að 17 ára Rúrik Gíslason hafi verið lykilleikmaður hjá HK. Sömu sögu má segja um 15 ára Elínu Mettu og Fanndísi Friðriksdóttur.
Hins vegar voru þessir leikmenn möguleikaríkir. Enginn þeirra bjó yfir líkamlegum yfirburðum og margir hefðu kannski álitið þau „ekki tilbúin”. En uppeldisfélög þeirra ákváðu að gefa þeim það svigrúm sem ungir efnilegir leikmenn nauðsynlega þurfa.

Ungir leikmenn bera yfirleitt ekki af í sínum fyrstu leikjum. Þeir munu gera mistök og mögulega kosta lið sín einhver stig. En til að hámarka möguleika þessara möguleikaríku leikmanna er mikilvægt að þeir fái tækifæri til að spila á hærra getustigi en þeirra eigin. Þolinmæði meistaraflokksþjálfara er því gulls ígildi því ef vel gengur munu efnilegu leikmennirnir smám saman öðlast sjálfstraust sem er öllu íþróttafólki dýrmætt veganesti.

Mig langar að skora á íslensk knattspyrnulið að gefa efnilegustu leikmönnum sínum tækifærið í sumar. Til að mynda væri ekki galið að skilja alltaf eftir eitt byrjunarliðssæti sem nokkurs konar „development spot”. Þar væri kjörið að leyfa ungum leikmönnum að spreyta sig í hverri umferð til þess að taka hin mikilvægu fyrstu skref.
32.jpg
Það er þó ljóst að nokkur félög, sérstaklega í efstu deild karla, eru ár hvert í harðri baráttu um sæti í Evrópukeppni þar sem miklir fjármunir eru í húfi. Þessi tilteknu félög hafa mögulega minna svigrúm fyrir unga leikmenn en þau mega samt ekki gleyma mikilvægi þess að hlúa að uppeldisstarfinu.

Til að draga þessa örrannsókn saman varpa ég hér fram nokkrum punktum sem ég hef trú á að geti hjálpað íslenskum knattspyrnufélögum. Ég tel mikilvægt að:

  1. Skilgreina stefnu og markmið félagsins. Fyrir hvað vill félagið standa?
  2. Hugsa 10 ár fram í tímann í stað þess að hugsa eitt.
  3. Ráða meistaraflokksþjálfara sem hefur hagsmuni félagsins í fyrirrúmi en ekki eigin ferilskrá.
  4. Leggja fjármagn og áherslu á yngri flokka starfið. Ráðning góðra þjálfara, metnaðarfullt umhverfi og rauður þráður úr yngstu flokkum og upp í meistaraflokk mun skila sér.
  5. Leggja áherslu á að efnilegustu leikmenn félagsins fái að spreyta sig með meistaraflokki nógu snemma.

Við erum að gera margt rétt, en við getum ennþá gert miklu betur. Yngri flokka starf á Íslandi er oftast til fyrirmyndar og til að halda áfram að uppskera vel þarf að plægja frjóan jarðveg íslensku knattspyrnunnar, sá fræjum og vökva vel.
Hugum að ungu leikmönnunum, notum heimamennina og látum sumarið 2016 einkennast af uppbyggingu og metnað fyrir því að þróa og þroska innviði félagsins.

Höfundur greinarinnar er mikill áhugamaður um íslenska knattspyrnu og markmið þessara skrifa eru hvorki að meiða neinn né móðga heldur einungis að skapa umræðu og að rýna til gagns svo við getum tekið enn eitt skrefið fram á við.

Ég þakka vinum mínum Arnari Þór Axelssyni tölfræðisérfræðingi og Magnúsi Erni Helgassyni þjálfara og yfirlesara fyrir hjálpina. Eyjólfur Garðarsson á heiðurinn að öllum ljósmyndum.

Grotta-Breidablik-002.jpg