24. júlí 2016

Að breyta lífinu til frambúðar

Í síðasta pistli talaði ég um stóru steinana og venjumynstrið sem við veljum okkur. Þegar ég velti því fyrir mér hverjir stóru steinarnir mínir væru komst ég að því að þeir eru ansi margir. Það er ýmislegt sem skiptir miklu máli í lífinu og það er undir okkur komið að skilgreina hvað það er.
Fjölskyldan mín, markmiðin mín, vinir mínir, heilsan mín eru dæmi um stóra steina sem ég ætlaði að einbeita mér að því að forgangraða ofan í vasann.


Þegar ég fór að velta heilsunni fyrir mér áttaði ég mig á því hvað ég hef verið að taka henni sem sjálfsögðum hlut og hvað hún er virkilega dýrmæt. Mun dýrmætari en flestir gera sér grein fyrir.


Lífið mitt hefur að miklu leyti snúist um hjartasjúkdóminn síðastliðin þrjú ár og ég hef beðið í ofvæni eftir því að komast í aðgerð. Þegar líða fór loksins að henni tók ég eftir því að heilsan var farin að versna ansi mikið. Andlega heilsan.
Kvíði og hræðsla fléttuðust saman í þunglyndi sem ég hélt út af fyrir mig og sagði engum frá. Það ástand fór að smitast yfir í aðra stóra steina og skemma út frá sér. Fjölskyldan mína og vinir mínir þurftu að líða fyrir ástandið og mér fannst ég ekki hafa stjórn á þessum aðstæðum. Ég vildi leita lausna á þessu og pantaði mér loks tíma hjá sálfræðingi og við fórum yfir málin.


Ég hafði ekki reynslu af því að fara til sálfræðings en fann mig einhvern veginn í hlutverki Will Hunting á sófanum hjá Sean Maguire. Ég talaði um kvíðann og skapið mitt og hversu þungt lífið væri. Hann hlustaði, skrifaði ekkert niður í skrifblokkina, og kinkaði kolli við og við.
Þegar ég hafði lokið máli mínu horfði hann djúpt í augun á mér og ég leit undan - forðaðist augnaráðið, hræddur um að hann færi að skrifa á mig þunglyndislyf. Hann beið eftir því að við næðum augnsambandi aftur og spurði mig þá: ,,Hvað hreyfiru þig oft?”
,,Ég hef lítið sem ekkert hreyft mig frá því að mér var kippt út úr fótboltanum...fyrir þremur árum,” svaraði ég.
Það færðist bros yfir andlitið á honum líkt og hann hafði fundið lækninguna við öllu því sem hefur hrjáð mig. ,,Hreyfðu þig drengur, oft og reglulega. Farðu út að labba, skokka, leiktu þér í körfubolta, fótbolta, syntu.. Hvað sem er. Hreyfðu þig!”
Við ákváðum í sameiningu að í stað þess að eyða tugum þúsunda í sálfræðimeðferð myndi ég gera breytingar á venjum mínum og koma hreyfingu inn í mystrið - líkamlega og andlega vegna.

Tveimur vikum síðar komst ég í hjartaaðgerðina mína og þá loksins var þungu fargi af mér létt - að ég hélt. Spennufallið var mikið og endurhæfingin gekk hægt. Tveimur vikum eftir aðgerð var ég búinn að grennast um 10 kíló, þunglyndið, kvíðinn og streitan tekið öll völd og ég hafði enga stjórn.

Mynd tekin 26.04.2016
Þá tók ég ákvörðun að breyta hlutunum til frambúðar. Fegurð lífsins er fólgin í því að við höfum alltaf val. Það er aldrei of seint að breyta til. Taka U beygju og endurskilgreina þá hluti sem skipta máli. Ég setti heilsuna í fyrsta sæti. Það er stærsti steinninn minn. Hann þarf að fara fyrst í vasann. Heilsan, sem er tvíþætt, andleg og líkamleg, er nefnilega oft undir okkur sjálfum komin.
Hippocrates, grískur læknir frá 4.öld fyrir Krist, hélt því fyrstur fram að heilsukvillar væru ekki refsingar guðanna við ólifnaði manna heldur orsök umhverfislegra þátta, mataræðis og venja.

Ég ákvað að byrja rólega. Fyrstu venjurnar sem ég tamdi mér voru að stilla næringuna - sem hafði einkennst af mikilli óregli, sykri, snakki og feitum mat og hafði gífurlega mikil áhrif á líðan. Fyrsta markmiðið var að borða þrjár hollar máltíðir á dag og snarminnka sukkið. Það tókst.
Ég fór að elda (kærastan mín réttara sagt) og notaðist mikið við uppskriftarbókina Eat Yourself Calm, en hún inniheldur ekki bara aragrúa af uppskriftum, heldur einnig mikinn fróðleik um áhrif matarins á heilsuna og andlega líðan. Það tók þó nokkurn tíma að stilla þessa venju inn, en hægt og sígandi tamdi ég mér að borða morgunmat, hádegismat og kvöldmat og var þetta orðinn ómissandi partur af daglegri rútínu þremur vikum síðar.

Næsta markmið var að endurstilla sólahringinn hjá mér. Fyrir og eftir aðgerð var venjan að vakna klukkan 12 að hádegi og fara að sofa í kringum þrjú eftir miðnætti. Horfa á mynd fyrir svefn og sofna svo út frá henni var fastur liður hvert kvöld. Ég vissi að ég þyrfti að gera breytingar á þessu, en sjónvarp fyrir svefninn er ávísun á lélega hvíld og getur ýtt undir þunglyndi (sjá hér).
Átta tíma svefn og að sofna fyrir miðnætti var því næsta venja sem ég ákvað að installa til þess að létta á kvíðanum og þunglyndinu. Það tókst, þó ekki á einni nóttu. Hálftíma fyrr að sofa og að stilla vekjaraklukkuna hálftíma fyrr eina nóttina. Þá næstu færa sig enn nær markinu. Tveimur vikum síðar var ég að sofna fyrir miðnætti og að vakna klukkan átta.


Þá var það hreyfingin sem að átti að verða töfralausnin við öllu saman samkvæmt dr. Maguire.
Það vill oft verða að þegar fólk ákveður að tileinka sér lífstílsbreytingar þá fer það í öfgar. Vakna sex alla morgna og fara í ræktina, taka svo góða cardio æfingu eftir hádegi og Hot Yoga seinni partinn alla daga ALLTAF. Svo springur það eftir tvær vikur, nær ekki að breyta venjunum og færist aftur á byrjunarreit - jafnvel aftar þar sem að fyrri upplifun af breytingum var neikvæð og líkaminn brást illa við.


Ég byrjaði á 15 mínútna göngutúr alla daga. Stuttu síðar urðu þeir 20 mínútur. Svo hálftími. Að lokum klukkutími og ég fann það hvað þessi göngutúr sem byrjaði sem kvöl varð hápunktur dagsins.
Að vera einn með sjálfum sér og hugsunum sínum og að labba í kyrrðinni - hljómar speisað, en þetta var eitthvað sem kom mér af stað.


Mánuði síðar fór ég að finna fyrir löngun til þess að byrja að gera eitthvað meira. Þá fór ég að fara í ræktina. Ekki til þess að rífa upp 100kg í bekk og 200kg í dedd heldur til þess að fá blóðfæði í vöðvana. Ein æfing fyrir hvern vöðvahóp, léttar þyngdir, 15 repp og góð hvíld á milli til að ná púlsinum niður.
Svo fór ég að vilja gera meira og bæta við mig. Ég náði hægt og bítandi með tímanum að gera þetta að nýrri venju og temja mér styrktaræfingar þrisvar í viku.


Tveimur vikum síðar langaði mig að byrja að hlaupa. Í stað þess að fara á fullt og að keppa við einhverja tíma og vegalengdir byrjaði ég rólega.
Tvær og hálf mínúta af göngu og ein mínúta skokk svo endurtók ég þangað til að klukkan sagði 30 mínútur. Með þessu keyrði ég kerfið ekki í kaf heldur hægt og sígandi fór ég að auka hraðann í skokkinu án þess að líkaminn færi í sjokk. Ég byrjaði tvisvar í viku, fljótlega urðu skokkin þrisvar í viku og loks fimm sinnum í viku.
Í dag mánuði síðar er ég búinn að snúa þessu í tvær mínútur af göngu og ein og hálf mínúta af skokki. Hægt og sígandi eykst þolið og lungun, hjartað og æðakerfið taka við sér.


Ég hef aldrei þyngst mikið með hreyfingarleysi og slæmu mataraæði og alltaf verið fit. Ég hafði því ég engar áhyggjur af hlutunum. Fólk sagði reglulega við mig: ,,Þú ert svo heppinn að geta borðað hvað sem er án þess að fitna!" En það er ýmislegt sem slæmt mataræði og slæmar venjur hafa í för með sér sem ekki sést á yfirborðinu.
Þetta hefur talsvert meiri áhrif á andlegu heilsuna en fólk gerir sér grein fyrir. Ég get ekki undirstrikað það nægilega mikið hvað þetta sktiptir gífurlega miklu máli. Svefn, næring og hreyfing eru grunnstoðir heilsunnar og með breyttum venjum er hægt að sjá miklar breytingar á andlegri líðan.


Í dag eru rúmir þrír mánuðir frá því að ég fór í hjartaaðgerðina mína. Með breyttu venjumynstri og þolinmæði gagnvart því að temja mér nýjar venjur hefur andleg heilsa stórbatnað. Þunglyndið gerir talsvert minna vart við sig og stjórnin á kvíðanum hefur stór aukist. Ég hef þyngst um 10 kíló á þessum mánuðum og náð upp fyrri styrk en fyrst og fremst er hausinn á mér 100 kílóum léttari.

Þrír mánuðir af breyttum venjum

Ég mæli eindregið með því að þegar þið skilgreinið það hverjir stóru steinarnir ykkar eru að þá spyrjið ykkur sömuleiðis: ,,Hvað get ég gert til að hlúa betur að því sem skiptir máli?” Lífstílsbreytingar eru langhlaup sem ekki má hugsa í stuttum sprettum. Megrunarkúrar, öfgafullar breytingar í hreyfinga - og venjumynstri eru einungis skammtímalausnir þar sem að líkaminn á eftir að gefast upp og sækja aftur í gamlar venjur. Með því að byrja rólega og vinna breytingarnar hægt og sígandi inn í kerfið og rútínuna getur ávinningurinn verið til mun lengri tíma og þar af leiðandi bætt heilsuna til frambúðar!



Nokkur lítil skref í átt að lífsstílsbreytingu - sem hjálpuðu mér

  • Veldu alltaf stigann í stað þess að taka lyftuna, rúllustigann eða "flugvallar færibandið"
  • Vertu alltaf með vatnsflösku/brúsa innan handar og passaðu þig á að vökva líkamann vel
  • Æfðu með púlsband og ráðfærðu þig við lækni hvað er eðlilegur meðalpúls á æfingum hjá þér
  • Haltu matardagbók og fylgstu með því sem þú ert að borða - þá er auðveldara að vita hvað má taka út og hvað má gera betur
  • Drekktu te morgna og kvölds (koffínlaust á kvöldin)
  • Ekki vanmeta hvíldina - hvíldardagar og hvíld eftir æfingar eru gífurlega mikilvægur hluti af ferlinu
  • Settu þér raunhæf markmið - t.d. fjöldi æfinga í viku, meðalpúls sem stefnt er að, o.s.frv.
  • Njóttu þess að breyta lífi þínu. Ferlið er jafn lærdómsríkt og afraksturinn


21. júlí 2016

Stóru steinarnir

Nú er liðinn ansi langur tími frá því að ég skrifaði pistil hingað inn. Ég hef alltaf verið á leiðinni í það en svo einhvern veginn hefur ekkert orðið úr því. Og það má spegla það yfir á svo margt annað. Ég einhvern veginn ætla að gera eitthvað, en svo verður ekkert úr því. Ég er búinn að vera fastur í venjumynstri sem er svo afkastalítið að tíminn hefur flogið frá og mánuðum seinna er ég enn á leiðinni að gera eitthvað sem ég ætlaði að vera löngu búinn að gera.


Ég held að virkilega margir þekki þetta mynstur. “Refresha” allar veitur á öllum samfélagsmiðlum, aftur og aftur þrátt fyrir að ekkert nýtt sé að koma inn, lesa fréttir og greinar um eitthvað sem einfaldlega kemur lífi manns ekki neitt við. Ég finn mig oft í þeirri hugsun þegar ég er að skoða kannski fimmtánda “MyStory-ið" í röð á Snapchat: ,,Hvað er ég að eyða tímanum í!?”


Ég settist niður í spjall fyrir ekki svo löngu með manni sem hefur opnað augu mín fyrir ansi mörgu og oftar en ekki haft svör á reiðum höndum og við tókum þessa umræðu: Hvað tíminn flýgur alltof hratt og maður kemst alltof sjaldan áfram með hlutina. Í kjölfarið líður manni illa með sjálfan sig og afköstin þar sem tímanum er ekki varið á skynsaman hátt.


Hann sagði mér þá söguna af kennaranum í Frakklandi sem var að kenna viðskiptafræðinemum skilvirka tímastjórnun.
Nemendurnir mættu með skrifblokkirnar, tilbúnir að punkta niður öll þau ráð sem kæmu út úr þessum fróða manni,
Kennarinn labbaði inn, lagði stóran vasa og vatnskönnu á borðið og hellti úr poka fullum af stórum steinum, poka fullum af steinvölum og poka fullum af sandi á borðið og sagði spenntur: ,,Við ætlum að gera tilraun í dag!”


Kennarinn byrjaði á því að raða öllum stóru steinunum í vasann þannig að ekki fleiri komust fyrir. Hann spurði því nemendurna: ,,Er vasinn orðinn fullur?”
Þeir horfðu á vasann og sáu ekki fram á að fleiri steinar kæmust fyrir í honum og svöruðu: ,,Já..”
Kennarinn brosti og sagði: ,,Sjáum til..”
Því næst tók hann upp steinvölurnar og hellti þeim ofan í vasann svo að þær smeygðu sér á milli stærri steinanna og enduðu á botni vasans. Hann spurði því aftur: ,,En núna?”
Þá fóru nemendurnir að átta sig á tilætlunum kennarans og svöruðu: ,,Greinilega ekki..”
,,Hárrétt!” Svaraði kennarinn og tók upp sandpokann og hellti í vasann. Sandurinn smeygði sér á milli stóru steinanna og fyllti upp í bilið á milli þeirra og steinvalanna.
Aftur spurði kennarinn: ,,Er vasinn fullur?”
Nemendurnir svöruðu neitandi.
Kennarinn tók þá upp vatnskönnuna og hellti í vasann þangað til að hann var alveg fullur og vatnið við það að flæða upp úr. Þá spurði hann: ,,Hvað getum við lært af þessari tilraun?”
Einn nemandi svaraði: ,, Alveg sama hversu mikið er að gera hjá okkur og sama hversu þétt dagskráin er, getum við alltaf lagt meira á okkur og aukið við okkur, tekið fleiri fundi og verkefni.”

Kennarinn hristi hausinn. ,,Það er alrangt, “ svaraði hann. ,,Ef við byrjum ekki á því að láta stóru steinana í vasann, passa þeir ekki í hann.”
Nemendurnir þögnuðu og hlustuðu á það sem kennarinn hafði að segja.
,,Hverjir eru stóru steinarnir í lífi þínu? Fjölskyldan? Heilsan? Markmiðin þín? Vinir þínir? Að gera það sem þú elskar? Að standa fyrir einhvern ákveðin málstað? Að slaka á?”


Boðskapur sögunnar er sá að við þurfum að skilgreina það hverjir stóru steinarnir í lífi okkar eru. Við þurfum að forgangsraða þeim og setja þá fyrst í vasann. Ef við byrjum á hlutum sem skipta okkur minna máli og hlutum sem einungis stela tíma frá okkur (steinvölurnar og sandurinn) verður líf okkar uppfullt af ómerkilegum hlutum og tíminn mun fara frá okkur.


Venjurnar eru það sem skiptir mestu máli - þær eru líf okkar. Við erum mótuð af því sem við verjum tíma okkar í.
Eitt er víst. Öll munum við deyja einhvern tímann. Það er því undir okkur komið að láta alla stóru steinanna passa í vasann. Hugum að því sem okkur þykir vænst um og lifum tilgangsríku og afkastamiklu lífi. Verum besta mögulega útgáfan af sjálfum okkur og hættum að eyða tímanum í eitthvað annað.

Að því sögðu vil ég biðja ykkur um að skilgreina stóru steinana í lífi ykkar. Hvað þarf að fara fyrst í vasann? Hvað er þér mikilvægast?