8. mars 2017



,,Hvað ertu að gera í lífinu?" 
Spurningin sem fyrst ber á góma í samræðum við einstakling sem þú hefur ekki séð síðan í grunnskóla. Eða ættingja sem þú hefur haldið litlu sambandi við undanfarin ár.
Svarið er einnar setningar samantekt á öllu því sem þú ert að fást við og sinna dags daglega.
Stöðu uppfærsla.

Þegar ég starfaði sem þjálfari í Kólumbíu fékk ég þessa spurningu á förnum vegi. Margir ráku upp stór augu þegar hundrað og níutíu sentímetra hvítur einstaklingur ráfaði um fátækrahverfi Bogotá og urðu að svala forvitni sinni og komast að því hvað el gringo var að vilja í "frumskóginn".
Svarið var einfalt: ,,Ég er að halda börnum frá eiturlyfjum og vandræðum götunnar með því að kenna þeim gildi í gegnum fótbolta."
Mér leið virkilega vel með það sem ég var að gera, ég fann fyrir ríkum tilgangi og ég upplifði sjálfan mig sem hluti af einhverju stærra. Ég fann fyrir stolti af því sem ég var að gera í lífinu.


Þegar ég flutti aftur heim og var ráðinn sem þjálfari 2.flokks karla hjá Gróttu varð tilfinningin önnur.
Þegar sama spurning og ég svaraði stoltur út í Kólumbíu skaust upp var svarið alltaf stutt: ,,Ég er bara að þjálfa...En þú?"
Tilgangur vinnunnar var ekki jafn glæsilegur og þegar ég sinnti þjálfun úti í Kólumbíu, stoltið og upplifunin af starfinu var ekki eins og áður fyrr.

Fyrir skömmu síðan kynnti ég mér sögu Lego og hvernig þeim tókst að fara frá því að vera nærri gjaldþrota árið 2004 yfir í að verða eitt af öflugustu fyrirtækjum heimsins.
Yfirskrift fyrirtækisins hafði alltaf verið einföld: Að búa til leikföng fyrir börn.
Þegar fyrirtæki fer úr því að tapa 300 milljónum dollara á ári yfir í að vera eitt öflugasta fyrirtæki heims á einungis tíu árum má áætla að breytingarnar hafi verið drastískar og umsvifamiklar.
Lykillinn að breyttum árangri fyrirtækisins var hins vegar sá að það endurskilgreindi tilgang sinn og skipulagði fyrirtækið út frá þeim tilgangi.

Í stað þess að "búa til leikföng fyrir börn" var ákveðið að skilgreindur tilgangur, markmið og stefna fyrirtækisins yrði:


,,Inspire and develop the builders of tomorrow" 
,,Our ultimate purpose it to inspire and develop children to think creatively, reason systematically and release their potential to shape their own future - experiencing the endless human possibility." (Lego.com) 
(Ég leyfi mér að hafa þetta á ensku þar sem þýðingin yrði alltof pínleg...)

Með breyttri sýn og með breyttum tilgangi fóru hlutirnir að ganga betur.

Ég áætla að flestir geri sér grein fyrir mikilvægi þess innan fyrirtækja að skilgreina framtíðarsýnina, stefnuna og tilganginn. Þetta eru jú grunnstoðir fyrirtækja og grundvöllur fyrir árangri - og oft forsenda viðsnúnings líkt og þess sem Lego sýndi.
En þá spyr ég mig? Hvernig skilgreinum við það sem við erum að fást við í lífinu? Hvernig skilgreinum við tilgang okkar í starfi, námi og því sem við gerum dags daglega?


Þegar ég hóf störf í Gróttu var tilveran ekki eins spennandi og hún hafði verið í Kólumbíu. Tilgangur starfsins var ekki eins glæstur og stoltið, sem hafði einkennt dvöl mína í Bogota, var ekki lengur til staðar. Ég var bara að þjálfa.

Líkt og Lego má segja að ég hafi verið á barmi gjaldþrots - tilfinningalegs gjaldþrots. Það var því mikilvægt að fara sömu leið og þeir og endurskilgreina tilgang starfsins.
Eftir miklar vangaveltur er ég sannfærður um ýmislegt:

Ég er ekki bara að þjálfa. Ég er að skipuleggja hápunkt dagsins hjá mér og leikmönnum mínum. Ég er að kenna drengjum á mikilvægum aldri að tileinka sér gildi sem þeir geta tekið með sér út í lífið. Ég er að hjálpa leikmönnum mínum að færast nær markmiðum sínum. Ég er að kenna, leiðbeina og miðla með það að markmiði að strákarnir skili sér út í samfélagið sem betri einstaklingar. Ég er ekki bara að þjálfa.

Eftir að ég endurskilgreindi tilgang vinnunnar tók ég eftir því að krafturinn, áhuginn og ástríðan stórjókst. Hver einasta æfing varð hluti af einhverju svo miklu stærra og ánægjan eftir hverja æfingu, leik eða fund, er nú engu lík.

Með breyttri sýn og með breyttum tilgangi eru hlutirnir að ganga betur.

Það er svo mikilvægt að skilgreina tilgang sinn og velta hlutunum fyrir sér. Að sannfæra sjálfan þig um að starfið, námið eða hvað sem þú ert að fást við er hluti af einhverju stærra og meira og þjóni góðum og ríkum tilgangi getur gjörbreytt viðhorfi þínu til lífsins.

Þetta hefur reynst mér gífurlega vel og hjálpað mér ríkulega við að gera viðmótið til lífsins betra. Þá spyr ég þig; Hvernig skilgreinir þú tilganginn á bakvið þitt daglega amstur?