23. febrúar 2015

,,Þú sparkar eins og stelpa!"

Ég er svo heppinn að ég starfa við það sem ég elska að gera, að þjálfa fótbolta, allan daginn, alla daga. Það er þroskandi og lærdómsríkt að starfa með krökkum og fylgjast með þeim taka framförum bæði í fótbolta og sem einstaklingar.
Þegar ég var að taka ákvörðun um það hvaða flokka ég skyldi þjálfa þá hugsaði ég með mér að ég vildi gjarnan vinna með krökkum sem væru að taka sín fyrstu skref í fótbolta, sem og þeim sem væru að undirbúa sig fyrir sín fyrstu skref í meistaraflokk. Ég sóttist því eftir því að þjálfa 7.flokk karla og að starfa sem aðstoðarþjálfari í 2.flokki karla hjá Gróttu. Mér fannst mikilvægt að fá að þjálfa tvo gjörólíka aldurshópa til þess að hafa sem mesta fjölbreytni í þessu.

Á sama tíma bauðst mér að þjálfa stelpur. Bæði stelpur í 6.flokki (9 og 10 ára) og stelpur í 5. flokki (11 og 12 ára). Þegar þetta tilboð kom upp á borðið hugsaði ég með mér: ,,Stelpur? Nei, það er alltof mikill pakki"... ,,Þær eru ekkert í þessu af neinni alvöru".... ,,Það koma alltof margir drama árekstrar upp" o.s.frv. Þetta eru pælingar sem að ég tel að skjótist upp í hugann á alltof mörgum þegar þeir hugsa um stelpur í boltaíþróttum. Hvers vegna ætli það sé? Staðalímyndir stúlkna í boltaíþróttum eru mótaðar af þessum sömu pælingum og skutust upp í hausinn á mér þegar ég velti þessu tilboði fyrir mér, sem er sorglegt. Í strákaíþróttum eru frasar eins og ,,Þú kastar/sparkar eins og stelpa!" og ,,Ekki vera kelling!" rótgrónir sem orsakar það að stelpum er ekki tekið alvarlega í boltaíþróttum.

Eftir miklar vangaveltur og pælingar fram og til baka þá ákvað ég á endanum að taka slaginn. Ég ákvað það að taka að mér þjálfun beggja flokkanna og lofaði mér því að ég skyldi setja nákvæmlega sömu kröfur á stelpurnar og ég myndi setja á stráka á sama aldri.
Þetta er ein allra besta ákvörðun sem ég hef tekið, þá helst vegna þess að ég hafði svo innilega rangt fyrir mér. Eftir að hafa þjálfað þessa tvo flokka í 7 mánuði við hliðina á því að þjálfa áður nefnda stráka flokka hef ég komist að því að þessar skoðanir og vangaveltur sem að ég hafði áður en ég tók við starfinu voru svo kolrangar og taktlausar. Af minni reynslu þá fullyrði ég það að það á að setja sömu kröfur á stelpur og stráka í yngri flokkum í þjálfun, og það á að taka kvennaíþróttum jafn alvarlega og karlaíþróttum. 

Það á að setja sömu kröfur á stelpur og stráka

Fjölmiðlaumhverfið og umræðan veldur því að markaðsetning á strákafótbolta er margfalt öflugri heldur en kvenna megin. Ég framkvæmdi könnun í báðum kvennaflokkunum þar sem að ég spurði hverja einustu stelpu hver hennar uppáhalds fótboltamaður/fótboltakona væri. Allar svöruðu með karlkyns fótboltamanni. Utan æfingatíma horfa strákar á hetjurnar sínar spila fótbolta, fara í FIFA og spila með hetjurnar í tölvunni og fara svo út í fótbolta og leika þessar sömu hetjur. Stelpurnar geta varla horft á stelpur spila fótbolta í sjónvarpi og því er skortur á kvenkyns fyrirmyndum og hetjum. Þær geta ekki stýrt þeim í tölvunni, þar sem að það er ekki til kvenkyns fótbolta leikur, og því fara þær ekki út á völl að leika hetjurnar sínar þar sem að þær eiga engar kvenkyns hetjur. 
Tölvuleikir þar sem þú getur stýrt þessum stórstjörnum verður til þess að þú byrjar að idolisera hetjurnar á tölvuskjánum. Það er mjög langsótt að EA Sports muni bjóða upp á kvennabolta í FIFA leikjunum og því er varla hægt að sjá fram á breytingar í þessum efnum. Hins vegar þarf fjölmiðlaumfjöllun og umræðan að taka breytingum. KSÍ fær hins vegar hrós fyrir bætta markaðsetningu á kvennafótbolta undanfarin ár.

Eini EA Sports leikurinn sem býður upp á kvenkyns leikmenn er UFC bardagaleikurinn. Það er hluti af ástæðu þess að Ronda Rousey er eitt heitasta nafnið í Bandarískum íþróttum í dag.

Það þarf að breyta þessum staðalímyndum um boltaíþróttirnar og útrýma áður nefndum frösum. Þjálfarar, foreldrar og þeir sem koma að íþróttahreyfingunni þurfa að taka höndum saman í því að sjá til þess að það verði viðhorfsbreyting á þessu. Stelpur eiga að fá sömu tækifæri og strákar. Fótboltinn getur boðið upp á svo margt. Launuð atvinnumennska, niðurgreitt háskólanám úti í heimi, félagskapur og minningar til margra ára eru dæmi um tækifærin sem fótboltinn býður upp á og stelpur eiga að ganga að sama borði og strákar í þessum efnum.


Leitarniðurstöður Google fyrir "female soccer" eru í takt við stöðu kvennaknattspyrnunnar

Að lokum langar mig að benda á #LikeAGirl auglýsingaherferðina sem að Always fór af stað með sumarið 2014. Þar var fólk beðið um að gera ýmsa hluti eins og stelpa. Flestir brugðust við með því að gera hlutina á fíflalegan hátt og það er einmitt viðhorfið sem er alltof áberandi í boltaíþróttum. Boðskapurinn er sá að ef þú ert að gera hlutina eins og stelpa, haltu því áfram. 




8. febrúar 2015

Hið óvænta

Það er nauðsynlegt að framkvæma sjálfsmat endrum og eins og velta fyrir sér þeim hlutum sem maður vill sjá breytast hjá sjálfum sér. Allir hafa tileinkað sér margar venjur, bæði góðar sem og slæmar, og því er nauðsynlegt að spyrja sjálfan sig að því hvaða venjur eru slæmar og hvað maður getur sjálfur gert til þess að breyta þeim og vera þar með ánægðari með sjálfan sig?

Þegar ég lagðist í sjálfsmat fyrir nokkru síðan fannst mér ég vera alltof passívur, þ.e. ég hugsaði alltof mikið út í hlutina áður en ég framkvæmdi þá: ,,Hverjar eru mögulega niðurstöður? Hvað svo? Hvernig á ég eiginlega að gera þetta? Hvað ef þetta klikkar? o.s.frv." voru spurningar sem ég spurði mig vanalega áður en ég hafði mig í hlutina. Ef mér líkaði ekki svörin sem ég fékk við þessum spurningum bakkaði ég einfaldlega út úr þeim og framkvæmdi þá ekki.


Það kannast flestir við hugtakið "Comfort Zone" eða "Þægindarammi". Skilgreiningin á hugtakinu er á þessa vegu: 

,,Þægindiramminn er sálfræðilegt ástand þar sem maður finnur fyrir vellíðan, stjórn á aðstæðum og lágmarks áhyggjum. Einstaklingur í þessu ástandi notar takmarkaða hegðun til þess að skila stöðugri frammistöðu, yfirleitt án þess að finna fyrir áhættu."

Ég var staddur á mjög þæginlegum stað í þessum tiltekna ramma og var alltaf í fullkominni stjórn á aðstæðum og þar með vissi ég alltaf hver útkoman á hlutunum yrði. 

Þegar ég áttaði mig á þessu vissi ég strax að það væri lykilatriði að gera skjóta breytingu á þessu og koma mér út úr þessum ramma. Lífið snýst ekki um að vita alltaf niðustöðuna á hlutunum og að hafa allt undir fullkominni stjórn. Fegurð lífsins fellst í þessu óvænta - þegar maður sjokkerar sjálfan sig og gerir hluti sem maður átti fyrirfram ekki von á að maður gæti gert.
Að segja já við hlutum sem maður telur sig ekki geta gert er stór þáttur í því að þróa sjálfan sig. Maður tekur engum framförum ef maður er alltaf í sama farinu og veit hverjar niðurstöðurnar verða.

Hvatvísi er að mínu mati einn besti eiginleiki sem að hægt er að búa yfir. Að stökkva á hluti þegar þeir bjóðast manni á maður von á tveimur niðurstöðum: Maður gerir mistök sem eru ekkert annað en jákvæð reynsla eða hlutirnir ganga upp. Báðar niðurstöður eru af jákvæðum toga og því þarf maður öllu heldur að spyrja sig "Afhverju ekki?" fremur en "Afhverju?".
Það eru mjög margir sem standa í þessum sömu sporum og ég stóð í og ofhugsa hlutina. Ofhugsun drepur hamingjuna í lífinu og gerir lífið ekki spennandi.


Það er undir hverjum og einum komið hverju þeir vilja breyta og bæta og þegar þú metur sjálfan þig þá færðu svar við því hverju þú vilt kippa í liðinn til þess að njóta lífsins enn meira en þú gerir nú þegar. Ég tel að hvatvísi spili stóra rullu í því að lifa hamingjusömu lífi og maður getur upplifað hluti og fengið reynslu sem maður myndir aldrei gera ef dvölin inn í "Þægindarammanum" lengist.

Ég var með allt steypt í fast mót. Ég var kominn inn í flottan skóla í Bretlandi í þriggja ára nám og vissi 100% hvað ég ætlaði að gera að námi loknu og var með þetta allt kortlagt. Á ögurstundu setti ég skólann á hold, fór að vinna við það sem ég elska að gera og skráði mig nú í sjálfboðastarf í Suður/Mið-Ameríku næsta haust í 4 mánuði. Með hvatvísina að leiðarljósi finnst mér líf mitt, sem áður fyrr var nokkuð einhæft, vera miklu meira spennandi og ég mæli eindregið með því að fólk velti því fyrir sér hvaða breytingar það vill sjá á sínum háttum og sínu lífi til þess að fanga fegurð lífsins - það óvænta.

Henry Ford sagði:

,,If you always do what you’ve always done, you’ll always get what you’ve always got.” 

Ef þú gerir alltaf það sem þú hefur gert áður, færðu alltaf sömu niðurstöðuna. Þetta eru rosalega einföld orð og mjög "basic" en þau hafa virkilega djúpa merkingu og það býr mikil viska á bakvið þau. 

Fegurð lífsins er ekki fólgin í því að vita alltaf niðurstöðuna fyrirfram og að hafa svör við öllu, heldur að grípa tækifærin sem að lífið býður upp á og taka því óvænta með opnum örmum. Ekki ofhugsa - framkvæmdu.

-Bjarki Már Ólafsson