21. apríl 2017



Öll eigum við góða daga og slæma. Sumar vikur eru betri en aðrar og árstíðirnar eru misjafnar. Stundum líður manni vel og stundum illa. Þegar hlutirnir eru ekki nákvæmlega eins og þeir eiga að vera og tímarnir erfiðir er algengt að sjá ekki fyrir endann á þyngslunum og ímynda sér að hjallinn sé óyfirstíganlegur.


Það sem oft gleymist er að slæmu dagarnir eru jafn mikilvægir og þeir góðu. Þungur veturinn jafn dýrmætur og sólríku sumardagarnir. Þyngslin og erfiðleikarnir þjóna ríkum tilgangi.


Fyrir skömmu síðan rakst ég á Twitter færslu frá rithöfundinum Paulo Coelho þar sem hann sagði að ef maður ætlaði að njóta regnbogans yrði maður fyrst að kunna að meta rigninguna. Ég er hjartanlega sammála Paulo.
Til að njóta sólargeislanna og hlýjunnar sem fylgir vorsólinni verðum við að upplifa haglélið og slorið. Til að líða vel og njóta lífsins verðum við að ganga í gegnum erfiðleika og komast yfir hindranir.
En þrátt fyrir að dagarnir geti verið mis erfiðir og líðan misjöfn getum við alltaf átt hinn fullkomna dag.

"Rigningardagur" getur verið fullkominn dagur. Ég trúi því að með því að hlúa að eftirtöldum þáttum aukist líkurnar á því að maður njóti hvers dags og vakni á morgnana með bros á vör.

Hjarta:


Þegar við ræktum hjartræna þátt heilsunnar fylgjum við hjartanu; Að gera það sem maður elskar að gera, sinna áhugamálum sínum eða verja tíma með þeim sem manni þykir vænst um.
Við þurfum að hlusta á hjartað hvern einasta dag og fylgja því sem það segir. Það er ástæða fyrir því að við finnum fyrir ómældri ánægju af því að gera það sem okkur þykir skemmtilegast að gera og það er ástæða fyrir því að við fellum niður allar grímur og njótum af einlægni þegar við umgöngumst þá sem okkur þykir vænst um. Við þurfum að hlusta, hlúa að og rækta hjartað alla daga.


Hugur:


Hugurinn er hugtak sem nær yfir allar þær hugsanir sem skjótast um í höfðinu allan daginn. Hann er stöðugt á ferð og flugi og hoppar frá einni hugsun yfir á þá næstu en tugþúsundir hugsana skjótast upp í kollinn daglega.
Til að auka gæði þessara hugsana skiptir máli að rækta hugræna þáttinn. Eitt að markmiðum hvers einasta dags er að öðlast aukna þekkingu. Að læra eitthvað nýtt á hverjum degi. Að verða skarpari í dag en ég var í gær. Það eru ótal leiðir til að skerpa á huganum: Að framkvæma og meta, spyrja spurninga, lesa, læra í skólanum og svo framvegis.
Til að eiga hinn fullkomna dag þurfum við að dýpka hugann með aukinni þekkingu og reynslu.


Sál:

“Sálin” er hugtak sem gjarnan er notað til að lýsa því afli innra með okkur sem túlkar hugsanirnar. Sálin stýrir tilfinningum okkar og því hvernig okkur líður. Það gleymist oft að rækta sálina en hún er alveg jafn mikilvægur þáttur og hinir tveir. Hún er það sem skilgreinir okkur - okkar sanna "sjálf".
En hvernig hlúum við að sálinni?
Með því að veita henni athygli og viðurkenningu. Það gerum við til dæmis með hugleiðslu, einlægni í orðum og gjörðum, með því að tjá okkur um líðan okkar og fleira.


Líkami:

Til að eiga hinn fullkomna dag þurfum við að sjálfsögðu að rækta líkamann. Það er skylda okkar að bera virðingu fyrir líkamanum og veita honum athygli alla daga. Með hollri og góðri daglegri hreyfingu, næringu og hvíld ræktum við líkamann og eigum hinn fullkomna dag.

Dagarnir geta verið misgóðir og oft á tíðum mjög erfiðir. En með því að hlúa að þessum lykilþáttum verða dagarnir alltaf "fullkomnir" þrátt fyrir að þeir geti verið misjafnir.


Ég vona innilega að þú eigir hinn fullkomna dag, hvernig sem viðrar.