9. desember 2015

Samskipti

Að ferðast er það lærdómsríkasta sem ég hef gert. Að fá tækifæri til þess að sjá heiminn frá öðrum sjónarhornum en þú hefur gert allt þitt líf og að víkka sjóndeildarhringinn er öllum hollt.
Á ferðalagi mínu síðustu tvo mánuði hef ég lært mikið, ekki bara um þá staði sem ég hef heimsótt, heldur einna helst hef ég kynnst sjálfum mér sem og lífinu eins og það leggur sig. 


Margar spurningar skjótast upp í hugann og maður reynir eftir bestu getu að finna svör við þeim. Maður byrjar að skilgreina sjálfan sig.
Fyrir hvað stend ég?
Hver eru gildi mín í lífinu? 
Hvað er það sem virkilega skiptir mig máli? 
Hver er tilgangur lífs míns?"

Ég tel að það eru alltof fáir sem geta svarað þessum spurningum með sannfæringu. Alltof fáir geta skilgreint sjálfan sig en á sama tíma er ekki vandamál að skilgreina aðra. Í mínu tilviki hafði þroskaferlið staðnað og ég var að einhverju leyti fastur í "Groundhog day" rútínu og átti ég erfiðleikum með að skilgreina sjálfan mig. Það var þá sem ég ákvað að kúpla mig 100% út úr þessari rútínu og leita leiða til, í fyrsta lagi, að spurja mig þeirra spurninga sem höfðu ekki skotist upp í huga minn þá, og í örðu lagi, að finna svörin við þeim.

Einvera er öllum holl og þá sérstaklega þegar hún er í aðstæðum sem krefjast þess að þú brjótist út úr þægindarammanum. Ég kaus það að ferðast til Kólumbíu og eyða tíma í aðstæðum sem eru eins fjarri þeim sem ég ólst upp í og hugsast getur. Ég talaði enga spænsku, þrátt fyrir nokkuð dapran námsferil í tungumálinu og hér talar enginn ensku svo kröfurnar voru miklar.

Þá fyrst kynntist ég því að samskipti í þeim heim sem við lifum í eru skammt á veg komin eða öllu heldur hefur afturförin orðið talsvert mikil.
Mannfólkið tjáir sig á ólíkan máta með mismunandi tungumálum og víðsvegar um heiminn eru töluð um það bil 6500 tungumál. Sjálfur tala ég 3 tungumál, sem eru 0,046% af þeim tungumálum sem listuð eru. En það þýðir ekki að ég geti ekki átt í samskiptum við restina. 
Við eigum eitt sameiginlegt tjáningarform sem virðist hafa dofnað með tímanum og þeirri gífurlega þróun sem hefur átt sér stað. Tjáningarform sem án nokkurs vafa er æðra öðrum.
Allir þeir sem fæðast í þennan heim geta skilyrðislaust bæði skilið og tjáð sig með þessu formi, en alltof fáir gera það þar sem að það gleymist í því mikla lífsgæðakapphlaupi sem á sér stað í okkar nútíma samfélagi. Á meðan fólk er of upptekið af því að skilgreina aðra og að passa uppa ímynd sína þá dofnar þetta meðfædda tjáningaform.


Þetta alheims tjániningarform, sem er því miður orðið alltof sjaldgæft, byggir á heiðarleika og hreinskilni og krefst ekki orða. Það er skortur á þessum tveimur grundvallar gildum í nútíma samskiptum. Orð eru einungis ætluð til þess að einfalda okkur tjáninguna á þessum gildum, en með tímanum hafa þau flækt einfaldleikan sem felst í þeim. Það er of oft sem að orð eru valin til þess að þóknast öðrum. Að segja það sem aðrir vilja heyra, að segja það sem á að segja, til þess að vera samþykktur. Við förum á nokkurs konar "auto correct" stillingu og segjum það sem að er "réttast". 

Þegar þú ert í aðstæðum þar sem að þú getur ekki notast við orðaforða þarftu að tjá þig á annan máta. Með því tjáningarformi sem allir búa yfir, því sem ég er að tala um. Með tilfinningum. Með kærleika, hatri, gleði, reiði, depurð, samkennd o.s.frv. Og þessar tilfinningar eru alltaf hreinskilnar og heiðarlegar. Þær koma að innan og enginn getur skilgreint þig fyrir þær nema þú sjálfur. Þær eru tærasta og elsta tjáningarform sem til er. 

Í nútíma samskiptum er skortur á þessum gildum þar sem að mestur hluti samskipta fer fram í gegnum samskiptamiðla, þar sem að hvert orð er ritskoðað og "auto correct-að". Hver kannast ekki við það að skrifa inn skilaboð 5 sinnum áður en að senda það og velja bestu útgáfuna, og jafnvel sjá eftir því að hafa ekki skrifað hitt frekar en þetta og að bíða svo stressaður eftir svarinu.


Við lifum í heimi þar sem "small talk" er algengasta tjáningarformið og flestir keppast við það að heilla aðra sem mest. Að vera vel liðinn af öðrum. Listin að hlusta og að læra í gegnum samskipti við aðra hefur fengið að víkja fyrir listinni að dæma og skilgreina.
Spurðu sjálfan þig:
,,Hvað eru síðustu góðu samræður sem ég átti og afhverju?
Hvaða samræður hafa haft mest áhrif á mig í mínu lífi?
Af hverjum hef ég lært mest í gegnum samræður?
Hvenær var ég síðast virkilega trúr eigin tilfinningum og sannfæringu í samskiptum við aðra?" 

Listin að hlusta er dyggð sem að alltof fáir búa yfir í dag. Dalai Lama sagði: 

"When you talk you are only repeating what you already know, but when you listen you might learn something new"

Í samskiptum þurfum við að leitast við að læra. Að þroskast og að þróast. Að spyrja spurninga og að leita að þeim svörum sem virkilega skipta okkur máli. Fyrir mér er það er tilgangur lífsins: Að spyrja spurninga, að dýpka sig, að deila og gefa af sér, að upplifa, að brosa, að hlægja, að njóta og að gleyma sér í því.

Þegar þú leyfir huganum að reika áhyggjulausum og án allra skuldbindinga til tiltekinna hugsanna, án þess að hugsa út í álit annarra, þá ertu á lífi.



28. maí 2015

Framfarir

Í dag tilkynnti EA Sports að í fyrsta skipti munu FIFA leikirnir vinsælu bjóða upp á möguleikann að spila með kvennalandslið. Í pistli mínum "Þú sparkar eins og stelpa" sem ég skrifaði 23.febrúar fyrr á þessu ári benti ég á misræmið í kvenna og karla fótbolta og skortinn á fyrirmyndum kvenna megin.
Þar skrifaði ég:

"Utan æfingatíma horfa strákar á hetjurnar sínar spila fótbolta, fara í FIFA og spila með hetjurnar í tölvunni og fara svo út í fótbolta og leika þessar sömu hetjur. Stelpurnar geta varla horft á stelpur spila fótbolta í sjónvarpi og því er skortur á kvenkyns fyrirmyndum og hetjum. Þær geta ekki stýrt þeim í tölvunni, þar sem að það er ekki til kvenkyns fótbolta leikur, og því fara þær ekki út á völl að leika hetjurnar sínar þar sem að þær eiga engar kvenkyns hetjur. 
Tölvuleikir þar sem þú getur stýrt þessum stórstjörnum verður til þess að þú byrjar að idolisera hetjurnar á tölvuskjánum. Það er mjög langsótt að EA Sports muni bjóða upp á kvennabolta í FIFA leikjunum og því er varla hægt að sjá fram á breytingar í þessum efnum." 


Eins og ég skrifaði þá sá ég ekki fram á breytingar í þessum efnum og því fagna ég þeim innilega. Með því að bjóða upp á þann möguleika að stýra kvenkyns fótboltastelpum á tölvuskjánum má sjá fram á það að stelpur og strákar á öllum aldri geta nú í auknu mæli eignast kvenkyns fyrirmyndir í fótbolta. En er þetta skref fullnægjandi?

Það má margt fara miklu miklu betur. Til að mynda vil ég benda á það að Dagný Brynjarsdóttir varð á dögunum þýskur deildarmeistari með liði sínu Bayern Munchen. Þýska deildin er talin ein sú sterkasta í heiminum, en þýsk lið eru sigursælust allra liða í Meistaradeild Evrópu kvenna megin með sjö titla.
Ég spurði stelpurnar sem að ég er að þjálfa hvort að þær vissu hver Dagný Brynjardóttir væri. Ég er að þjálfa 35 stelpur á aldrinum 8-12 ára og ekki ein þeirra gat svarað þeirri spurningu. Í sömu andrá spurði ég þær hvort þær vissu hver Alfreð Finnbogason væri. Þær gátu svarað því auðveldlega og sögðu mér hvar hann spilaði og hvar hann hafði spilað þegar hann lék á Íslandi.

Hvernig stendur á því að þegar að íslensk stelpa sem að vinnur stærsta deildarmeistaratitil sem í boði er í Evrópu sé ekki fyrirmynd allra ungra fótboltastelpna á Íslandi?



Magnús Örn Helgason samstarfsmaður minn hjá Gróttu ritaði pistilinn "Foreldrar í feluleik" fyrr í mánuðinum þar sem að hann benti á það að rót vandans og misræmisins milli stúlkna og stráka í fótbolta væri heima fyrir. Áhugi foreldra er hreinlega ekki jafn mikill stráka og stelpu megin. Ég tek heilshugar undir þessi orð Magnúsar en þetta er ekki einungis vandamál í fótboltanum, heldur í boltaíþróttum almennt tel ég.

Nú þegar að stelpurnar mæta loksins í FIFA 16 þá skora ég á foreldra að kaupa leikinn fyrir dætur sínar og leyfa þeim að eignast kvenkyns fyrirmyndir á tölvuskjánum.
Ég skora á íslenskar sportstöðvar að sýna fleiri leiki í íslenska kvennafótboltanum og á fjölmiðla almennt um að auka umfjöllun um kvennaknattspyrnu. Það eru vissulega enginn Pepsi Marka þáttur í lok hverrar umferðar í kvennaboltanum en ég skora á sportstöðvarnar að sýna að lágmarki markasyrpu hverrar umferðar.

Stelpurnar eru mættar á tölvuskjáinn og það væri frábært að sjá meira af þeim í sjónvarpinu, til þess eins að næst þegar að íslensk stelpa vinnur stærsta deildarmeistaratitil sem í boði er þá verður nafn hennar á vörum allra ungra fótboltastelpna.

Í lok síðustu æfingar í 5. flokki kvenna sýndi ég þeim ótrúlegt mark í leik hjá kvennaliði Manchester City. Það þurfti ekki nema eitt video og þær halda nú allar með kvennaliði Manchester City, Sigga Helga til mikillar ánægju. Það þarf ekki nema eitt video til þess að áhuginn kvikni - hvað ætli bætt umfjöllun, töluleikjaspilun og reglulegt sjónvarpsáhorf geri?





26. apríl 2015

Plan A

Grunnskóli frá 6-13 ára.
Gagnfræðiskóli frá 13-16 ára.
Menntaskóli frá 16-20 ára.
Bs gráða frá háskóla fyrir 23 ára aldurinn.
Masters gráða fyrir 25 ára aldurinn.
Fá góða fasta vinnu og stofna fjölskyldu.


Þetta er nokkurn veginn 30 ára uppskrift að vel heppnuðum og vel gefnum einstakling í nútíma samfélaginu. Einstaklingur sem stenst allar þær kröfur sem að samfélagið setur á hann í dag. Einstaklingur sem smell passar inn í heiminn eins og hann á að vera. En þá spyr maður sig, hvað með hina? Hvað með alla þá hringlaga einstaklinga sem með engu móti passa inn í þennan þríhyrninglsaga heim. Allir þeir sem einfaldlega passa ekki inn í skólakerfið og finna sig ekki með engu móti í rútíneraðri tilverunni. 
Eins og ég sagði í síðasta pistli mínum er ég gífurlega þakklátur fyrir skólakerfið hér á Íslandi og alla þá fjölmörgu námsmöguleika sem í boði eru, en þetta kerfi hentaði mér líka mjög vel. Ég átti virkilega góða skólagöngu og ég naut mín virkilega vel og fékk tækifæri til þess að blómstra á menntaveginum. En það gera alls ekki allir. 

Ég var í sundi síðastliðinn laugardag og átti þar samræður við föður 18 ára gamals einstaklings. Hann sagði mér það að hann væri orðinn úrræðalaus vegna áhugaleysis sonar síns í skólanum. Strákurinn væri bara alveg við það að gefast upp og að staðan væri orðin það slæm að jafnvel þó að strákurinn mætti í skólann þá væri afköstin engin og hann sæi ekki fram á það að ná neinum einingum þetta árið. Af mörgum eru þeir sem ekki finna sig í kerfinu, líkt og þessi strákur, taldir haugar og aumingjar. Þeir þurfi bara að rífa sig upp og að byrja að læra. Málið er hins vegar ekki svo einfalt. Ef að strákurinn finnur sig ekki með neinu móti í skólanum og að afköstin eru ekki nein, hver er þá tilgangurinn fyrir því að mæta í skólann? Er það til þess að uppfylla þær fjölmörgu kröfur sem að samfélagið setur á fólk? Að ef að menn klári ekki stúdentsprófið á réttum tíma eða velji sér það að fara aðra leið en "skóla leiðina", þá eru þeir einfaldlega haugar. Ég er allaveganna ekki á því.

Það er einstaklingsbundið hvar áhugahvötin liggur hjá hverjum og einum. Sumir hafa þvílíkan áhuga á íþróttum, aðrir námi og margir tónlist svo eitthvað sé nefnt. Það þarf að leyfa öllum að þróa hæfileika sína eftir áhuganum. Lykillinn að árangri er að gera það sem þú elskar að gera og gefast ekki upp þrátt fyrir að á móti blási. Svo lengi sem þú ert að gera það sem að þú hefur áhuga á að gera þá áttu möguleika á því að skara fram úr í því. 18 ára einstaklingur sem að hefur ekki nokkurn áhuga á því að vera í skóla á að mínu mati að eyða þeim tíma sem að hann eyðir í "zombie- mode" í skólanum í það að þroska og þróa áhugasvið sitt og sérhæfa sig í áhugamálinu sínu. 

Skólinn er ekki eini staðurinn sem að fólk getur sótt sér menntun. Framtíð og viðhorf í garð einstaklinga á ekki að velta á því hvaðan þeir útskrifast eða hvernig þeim gekk í skólanum.
Ég mæli eindregið með því að þú skoðir myndbandið hér að neðan. Þetta myndband hafði virkilega mikil áhrif á mig og skoðanir mínar og kveikti pælingu sem setið hefur föst í hausnum á mér. 



Uppskriftin sem ég nefndi hér í byrjun er alls ekki fullkomin uppskrift að heilsteyptum einstakling. Heilsteypur einstaklingur er sá sem eyðir öllum sínum tíma í það að þróa sig og þroska á sínu eigin áhugasviði. Það þarf ekki endilega að vera með 19 ára skólagöngu. Hver þarf bara að fara sína leið og samfélagið þarf að bera virðingu fyrir því að það er engin leið réttari en önnur. 

Ég kem úr fótboltaumhverfinu þar sem mörgum dreymir um það á unga aldri að hætta í skóla og að einbeita sér af fullum krafti við fótboltann til þess seinna meir að eiga möguleika á því að geta skapað sér atvinnu af því að gera það sem maður elskar að gera, að spila fótbolta. Ég var með þessa hugmynd í hausnum á sínum tíma en gugnaði á þessu þar sem að þetta var ekki viðurkennt og kröfurnar frá foreldrunum og samfélaginu voru þær að fara í menntaskóla.
En afhverju þurfa einstaklingar sem vita nákvæmlega hvað þeir vilja gera við líf sitt og tíma sinn og að áfangastaðurinn sem að þeir leitast eftir því að enda á krefst ekki stúdentsprófs, að ganga í skóla. Það er alltaf talað um: ,,En hvað ef þú meiðist illa?" ,,Þú verður að hafa plan B" ofl. En afhverju?

Will Smith sagði eitt sinn : 
“There's no reason to have a plan B because it distracts from plan A.”

Ég tek undir þessi orð hans heilshugar. Mín skoðun er sú að einstaklingar eiga að nota allan sinn kraft og allan þann tíma sem þeir hafa á höndum sér í það að leita leiða og vinna í því að verða eins góður og þeir mögulega getur orðið í því sem þeir vilja verða góðir í. Einbeita sér að plani A. Spurðu sjálfan þig: ,,Hvað er mitt plan A?"

Hjá mörgum krefst plan A þess að ljúka skóla og fara þessa leið sem að ég nefndi í upphafi pistilsins sem er gott og blessað. Hjá öðrum krefst plan A einfaldlega ekki þess að fara í skóla. Hvers vegna velur sá einstaklingur sér þá það að eyða tíma sínum í skólanum? Er það til þess að uppfylla þær kröfur og væntingar sem að samfélagið setur á einstaklinga og að þóknast einhverjum öðrum en sjálfum sér eða er hann að fylgja eigin sannfæringu?



Það sem skiptir þó mestu máli er það að þú hafir trú á plani A. Að þú hafir trú á því að þú getir áorkað því sem að þig þyrstir í. Ef að þú hefur ekki trú á sjálfum þér og ef að þú sérð þig ekki fyrir þér á þeim áfangastað sem að þú vilt enda á, afhverju ætti þá einhver annar að gera það? Afhverju ætti einhver að taka þér alvarlega og hafa trú að þér ef að þú hefur það ekki sjálfur?

Það að lenda á lokuðum dyrum í lífinu leiðir oftar en ekki til þess að þú finnur þér nýjar dyr sem bjóða upp á ótalmarga nýja möguleika. Listinn af því fólki sem missteig sig í fyrstu atrennu en gafst ekki upp er mjög langur, en hér má finna skemmtilega samantekt af einstaklingum sem að flestir ættu að þekkja.

Svar mitt til föðursins í sundlauginni er það sama og ég segi til allra þeirra foreldra sem upplifa vonbrigða tilfinningu þegar að börn þeirra fara út af þeirri leið sem ég nefndi hér í byrjun: ,,Leyfðu honum að gera það sem honum langar að gera og það sem að hann hefur áhuga á, hvort sem það er í skólanum eða ekki. Sýndu honum ótrauðan stuðning og láttu hann trúa á sjálfan sig og á það sem að hann er að gera og hann mun á endanum blómstra á því sviði sem að hann hefur áhuga á og verða hamingjusamur.




25. mars 2015

Ísland

Mynd: Snorri Björnsson

Ísland er eitt allra fegursta land í heimi. Við erum rúmlega 320.000 manns á eyju úti á miðju Atlantshafi sem er það stór að á hvern ferkílómetra búa einungis 3 einstaklingar. Allir hafa nægt rými og svigrúm og tækifærin eru endalaus. Þrátt fyrir marga kosti landsins verð ég að alltof mikið var við neikvæða umfjöllun í þjóðfélaginu. Fólk finnur sér alltaf nýjar og nýjar ástæður til þess að kvarta og kveina yfir ótal göllum íslenska kerfisins og hvað nágrannaþjóðir okkar hafa það gott samanborið við okkur. Skólakerfið er gallað, maturinn er of dýr, ríkisstjórnin er vanhæf, það er ekki vænlegt að ala upp börn á Íslandi og ég veit ekki hvað og hvað. Það er alltaf einhvern veginn eitthvað að, eitthvað sem vantar og eitthvað sem þarf að breytast og það strax!

Ef að við lítum á heiminn sem einn stóran grunnskólabekk þá er Ísland einn lang fallegasti einstaklingurinn í bekknum. Hann er af dönskum uppruna og ber sig vel. Vel lesinn, sjálfstæður og þokkalegur yfirlitum. Hann kemur úr vel efnaðri fjölskyldu, sem þó hefur á sínum tíma lent í erfiðleikum fjárhagslega. Hann er mjög heilbrigður og hæfileikaríkur og býr yfir mörgum frábærum eiginleikum. Yfir vetrartímann er hann oft mjög þungur í skapinu og dimmt yfir honum en þegar það fer að vora blómstrar þessi einstaklingur og hans bestu hliðar fá að njóta sín. Hann er vinsæll og bekkjarfélögunum finnst hann mjög áhugaverður og spennandi.
Heima fyrir er þessi einstaklingur frekjudós. Kvartar yfir því hvað sessunauturinn hefur það gott. Þessi á þetta og hinn á hitt. Allt sem Íslendingurinn á er einhvern veginn ekki nógu gott, en það sem næsti maður við hliðiná á er frábært. Hann tuðar og tuðar heima fyrir um það að hlutirnir þurfi að breytast og að hann þurfi að eignast eitthvað í líkingu við það sem að maðurinn á næsta borði á og þá væri allt í góðum málum.
Það sem þessi frekjudós, sem situr fremst í stofunni, tekur ekki eftir er það að víðsvegar í skólastofunni horfa margir öfundaraugum á þennan fallega einstakling. Aftarlega í stofunni sitja einstaklingar margir hvejir skítugir og í slitnum fötum. Svo skítugir að það sést varla í andlitið á þeim. Þeir eru sumir hverjir horaðir, hungurmorða og jafnvel illa lyktandi. Bakgrunnur þeirra er að öllu leyti frábrugðinn þeim sem íslenski einstaklingurinn þekkir. Stanslausar fjölskylduerjur margar kynslóðir aftur í tímann, slagsmál heima fyrir og ekki einu sinni aðgangur að hreinu vatni svo dögum skiptir. Þessir einstaklingar búa sumir hverjir við þau lífsskilyrði að þeir geta ekki opinberað þeirra eigin skoðanir þar sem að heima fyrir verða þeir hýddir af ströngum foreldrum sínum. Þeim myndi ekki sinni detta það til hugar að storka í venjum og reglum heimilisins því það gæti þýtt að þeir yrðu hreinlega aflífaðir. Íslendingurinn lítur öðru hvoru aftast í stofuna og sér þessa einstaklinga, finnur til með þeim, en heldur svo áfram sínu ágæta lífi og tautar yfir því hvað lífið gæti verið miklu betra.

Mynd: Snorri Björnsson

Það er svo margt sem við getum verið þakklát fyrir í þessu frábæra landi sem við búum í. Svo ég vitni í upptalningu sem að Samúel Jón Samúelsson birti á Facebook síðu sinni fyrir alls ekki svo löngu:
“Upphituð hús, rafmagn allan sólarhringinn, rúm og sængur, drykkjarvatn úr hverjum krana, heitar laugar og langar heitar sturtur, skólplagnir, holræsakerfi, sorphirðukerfi, gatnakerfi, póstþjónusta, umferðarreglur, aðgangur að læknum og lyfjum, sjúkrahús, menntakerfi, skoðanafrelsi, trúfrelsi, endalaust vöruúrval í verslunum, enginn her, friður, ferðafrelsi. Var einhver að kvarta?”
Vissulega er margt sem að má gera betur þegar að kemur að stjórnarfari landsins. Ég hef ekki reynslu af því að sjá fyrir barni, vera á leigumarkaði, borga reikninga og halda uppi heimili og þar sem að við lifum í velferðarríki þá ætti vissulega að koma til móts við fólkið sem er að koma undir sig fótunum.
Hins vegar megum við ekki gleyma því að þakka fyrir allt það frábæra sem við eigum, öll þau tækifæri sem hér eru í boði og þá fjölmörgu kosti við það að búa hér á landi.
Helsti kosturinn við Ísland að mínu mati er íslenska fólkið. Það hvað við eigum marga hæfileikaríka og vel gefna einstaklinga á öllum sviðum lífsins.
Það er engin tilviljun að íslenskt fólk er að blómstra á heimsvísu hvort sem það er í tónlistaheiminum, íþróttaheiminum eða einhverju öðru.
Við búum við þau forréttindi að hér eru tækifærin endalaus. Börn hafa tækifæri til þess að stunda nokkurn veginn hvaða tómstund sem er og aðstæðurnar og umgjörðin hér á landi eru með þeim hætti að hægt er að verða afburðar góður í hverju því sem maður kýs sér. Námsmöguleikarnir eru ótalmargir hvort sem það er á menntaskóla- eða háskólastigi og þrátt fyrir það að margir vilji meina að skólakerfið á Íslandi sé meingallað, þá er það mun betra en á mörgum stöðum í heiminum og við megum vera þakklát fyrir það. 

Íslenska náttúran og landslagið er töfrum líkast og það er engin tilviljun að mörg þúsund ferðamenn flykkist hingað ár eftir ár einungis til þess að sjá þessa perlu með eigin augum. Of margir Íslendingar taka þessum forréttindum, að búa á einum fegursta stað veraldar, sem sjálfsögðum hlut og njóta því ekki þess besta sem landið hefur upp á að bjóða og eru þess í stað með hugann á einhverjum "hlýrri og exótískari" stöðum. 





Ég er þakklátur fyrir það að geta bloggað um hvað sem ég vil án þess að þessar færslur séu ritskoðaðar. Ég er þakklátur fyrir það að búa í því landi þar sem að jafnrétti kynja er hvað mest í heiminum (Sjá hér). Ég er þakklátur fyrir það að geta leyft mér að hafa mínar eigin trúarskoðanir og opinberað þær án þess að hljóta refsingu fyrir. Ég er þakklátur fyrir það að hafa aldrei þurft að kynnast þjáningum og eyðileggingu stríðs og ofbeldis. Ég er þakklátur fyrir það að búa á landi þar sem að samkynhneigð er viðurkennd. Ég er þakklátur fyrir það að hafa fæðst Íslendingur, hafa alist upp á Íslandi og fengið fullan aðgang að íslenska velferðarkerfinu.

Eins leiðinlegt og veðrið hefur verið nú í vetur (þá sérstaklega fyrir fótboltaþjálfara) þá getum við þakkað fyrir það þar sem að það gerir dagana í logni og sól enn betri og við njótum þeirra enn betur.
Ég er alls ekki að tala niður fólk sem að berst fyrir réttindum sínum hér á landi og vill sjá breytingar, heldur vil ég minna fólk á það sem það á og njóta alls þess besta sem að Ísland hefur upp á að bjóða í stað þess að hugsa um það hvað grasið er alltaf grænna hinum megin við lækinn og hvað nágrannaþjóðirnar í kringum okkur hafa það gott. 
Verum stoltir Íslendingar.

Ég mæli svo eindregið með því að fólk skoði bloggsíðuna hjá góðvini mínum og ljósmyndaranum Snorra Björnssyni. Snorri ferðaðist um landið í vetur og tók ótrúlegar myndir ásamt því að halda úti ferðasögu. Útkoman var stórskemmtileg og hana má sjá hér:

Sjá einnig: 

Mynd: Snorri Björnsson



1. mars 2015

Að láta lífið fara til spillis


Ég rakst á þetta ljóð um daginn og það fékk mig virkilega til þess að hugsa og pæla í hlutunum. Ég veit ekki hversu oft ég hef sagt setningar eins og: ,,Ég get ekki beðið eftir næstu helgi.." ... ,,Ég hata mánudaga.."... ,,Ég get ekki beðið eftir sumrinu.." og fleira í þeim dúr.
Alltof stór hluti lífsins fer í það að bíða með eftirvæntingu eftir einhverju öðru og meira en því sem er í gangi á líðandi stundu. Með stanslausri bið gleymir maður því að njóta augnabliksins og því má segja að maður gleymi á vissan hátt að lifa lífinu. Þetta er 100% ómeðvitað en hvað veldur þessu? 
Við förum að álíta lífið og umhverfið sem sjálfsagðan hlut.

Ástæðan fyrir því að mér finnst skemmtilegast að þjálfa og starfa í kringum unga krakka er einmitt það hvað þau eru þakklát fyrir umhverfið og lífið og hvað það þarf lítið til þess að gleðja þau. 
Ég horfði á fyrirlestur á TED um daginn þar sem að Neil Pasricha fjallaði um "The 3 A's Of Awesome" Eitt A-ið, awareness eða vitund, fjallar einmitt um það hvernig börn upplifa lífið og hvað hægt er að læra af þeim. Ástæðan fyrir því að að börnin eru svona hamingjusöm og glöð þegar að það byrjar til dæmis að snjóa er að þau eru laus við allar áhyggjur. Fullorðinn einstaklingur verður í flestum tilvikum pirraður yfir snjónum því að hann þýðir kuldi, gluggasköfun og hæg umferð. Á meðan eru börn oft að sjá hlutina í fyrsta skipti og líta þar með ekki á þá sem sjálfsagða heldur verða þau öllu heldur spennt og njóta litlu hlutanna í lífinu eins og snjókomunni.
Einhvers staðar á lífsleiðinni hafa margir gleymt barninu innra með sér og farið að líta á hlutina sem sjálfsagða. Eins og Neil Pasricha segir í fyrirlestrinum sínum þurfum við að finna barnið innra með okkur, því þetta sama barn og var spennt fyrir öllu saman þegar að það sá hlutina í fyrsta skipti er sami einstaklingur og þú ert í dag.

Mindfullness eða gjörhygli fjallar einmitt um það að einbeita sér að líðandi stundu. Allir búa yfir þessum eiginleika en í mismiklu mæli. Hægt er að þjálfa hann upp á einfaldan hátt með til dæmis æfingum og hugleiðslu. Ég mæli eindregið með því að kynna sér þetta nánar með því að lesa sig til um og síðan æfa upp þennan eiginleika til þess að njóta augnabliksins og lífsins enn frekar. 

Það eru litlu augnablikin og litlu hlutirnir sem saman mynda þetta stóra líf. Að njóta þess að gera hlutina á sama hátt og þegar að þú gerðir þá í fyrsta skipti er undirstaða þess að lifa hamingjusömu og áhyggjulausu lífi. Að lifa í stanlausri eftirvæntingu og bið eftir einhverju öðru verður einungis til þess að þegar að sá tími sem þú beiðst eftir rennur upp þá hefst bið og eftirvænting eftir einhverju öðru. Þessi stanslausi vítahringur, boðsskapur ljóðsins í upphafi pistilsins, veldur því að við gleymum því að lifa lífinu til fulls.
Eins og góður maður sagði að ef að þú hatar mánudaga, þá hatarðu 1/7 af ævi þinni, sem er alltof stór hluti til þess að láta fara til spillis.



23. febrúar 2015

,,Þú sparkar eins og stelpa!"

Ég er svo heppinn að ég starfa við það sem ég elska að gera, að þjálfa fótbolta, allan daginn, alla daga. Það er þroskandi og lærdómsríkt að starfa með krökkum og fylgjast með þeim taka framförum bæði í fótbolta og sem einstaklingar.
Þegar ég var að taka ákvörðun um það hvaða flokka ég skyldi þjálfa þá hugsaði ég með mér að ég vildi gjarnan vinna með krökkum sem væru að taka sín fyrstu skref í fótbolta, sem og þeim sem væru að undirbúa sig fyrir sín fyrstu skref í meistaraflokk. Ég sóttist því eftir því að þjálfa 7.flokk karla og að starfa sem aðstoðarþjálfari í 2.flokki karla hjá Gróttu. Mér fannst mikilvægt að fá að þjálfa tvo gjörólíka aldurshópa til þess að hafa sem mesta fjölbreytni í þessu.

Á sama tíma bauðst mér að þjálfa stelpur. Bæði stelpur í 6.flokki (9 og 10 ára) og stelpur í 5. flokki (11 og 12 ára). Þegar þetta tilboð kom upp á borðið hugsaði ég með mér: ,,Stelpur? Nei, það er alltof mikill pakki"... ,,Þær eru ekkert í þessu af neinni alvöru".... ,,Það koma alltof margir drama árekstrar upp" o.s.frv. Þetta eru pælingar sem að ég tel að skjótist upp í hugann á alltof mörgum þegar þeir hugsa um stelpur í boltaíþróttum. Hvers vegna ætli það sé? Staðalímyndir stúlkna í boltaíþróttum eru mótaðar af þessum sömu pælingum og skutust upp í hausinn á mér þegar ég velti þessu tilboði fyrir mér, sem er sorglegt. Í strákaíþróttum eru frasar eins og ,,Þú kastar/sparkar eins og stelpa!" og ,,Ekki vera kelling!" rótgrónir sem orsakar það að stelpum er ekki tekið alvarlega í boltaíþróttum.

Eftir miklar vangaveltur og pælingar fram og til baka þá ákvað ég á endanum að taka slaginn. Ég ákvað það að taka að mér þjálfun beggja flokkanna og lofaði mér því að ég skyldi setja nákvæmlega sömu kröfur á stelpurnar og ég myndi setja á stráka á sama aldri.
Þetta er ein allra besta ákvörðun sem ég hef tekið, þá helst vegna þess að ég hafði svo innilega rangt fyrir mér. Eftir að hafa þjálfað þessa tvo flokka í 7 mánuði við hliðina á því að þjálfa áður nefnda stráka flokka hef ég komist að því að þessar skoðanir og vangaveltur sem að ég hafði áður en ég tók við starfinu voru svo kolrangar og taktlausar. Af minni reynslu þá fullyrði ég það að það á að setja sömu kröfur á stelpur og stráka í yngri flokkum í þjálfun, og það á að taka kvennaíþróttum jafn alvarlega og karlaíþróttum. 

Það á að setja sömu kröfur á stelpur og stráka

Fjölmiðlaumhverfið og umræðan veldur því að markaðsetning á strákafótbolta er margfalt öflugri heldur en kvenna megin. Ég framkvæmdi könnun í báðum kvennaflokkunum þar sem að ég spurði hverja einustu stelpu hver hennar uppáhalds fótboltamaður/fótboltakona væri. Allar svöruðu með karlkyns fótboltamanni. Utan æfingatíma horfa strákar á hetjurnar sínar spila fótbolta, fara í FIFA og spila með hetjurnar í tölvunni og fara svo út í fótbolta og leika þessar sömu hetjur. Stelpurnar geta varla horft á stelpur spila fótbolta í sjónvarpi og því er skortur á kvenkyns fyrirmyndum og hetjum. Þær geta ekki stýrt þeim í tölvunni, þar sem að það er ekki til kvenkyns fótbolta leikur, og því fara þær ekki út á völl að leika hetjurnar sínar þar sem að þær eiga engar kvenkyns hetjur. 
Tölvuleikir þar sem þú getur stýrt þessum stórstjörnum verður til þess að þú byrjar að idolisera hetjurnar á tölvuskjánum. Það er mjög langsótt að EA Sports muni bjóða upp á kvennabolta í FIFA leikjunum og því er varla hægt að sjá fram á breytingar í þessum efnum. Hins vegar þarf fjölmiðlaumfjöllun og umræðan að taka breytingum. KSÍ fær hins vegar hrós fyrir bætta markaðsetningu á kvennafótbolta undanfarin ár.

Eini EA Sports leikurinn sem býður upp á kvenkyns leikmenn er UFC bardagaleikurinn. Það er hluti af ástæðu þess að Ronda Rousey er eitt heitasta nafnið í Bandarískum íþróttum í dag.

Það þarf að breyta þessum staðalímyndum um boltaíþróttirnar og útrýma áður nefndum frösum. Þjálfarar, foreldrar og þeir sem koma að íþróttahreyfingunni þurfa að taka höndum saman í því að sjá til þess að það verði viðhorfsbreyting á þessu. Stelpur eiga að fá sömu tækifæri og strákar. Fótboltinn getur boðið upp á svo margt. Launuð atvinnumennska, niðurgreitt háskólanám úti í heimi, félagskapur og minningar til margra ára eru dæmi um tækifærin sem fótboltinn býður upp á og stelpur eiga að ganga að sama borði og strákar í þessum efnum.


Leitarniðurstöður Google fyrir "female soccer" eru í takt við stöðu kvennaknattspyrnunnar

Að lokum langar mig að benda á #LikeAGirl auglýsingaherferðina sem að Always fór af stað með sumarið 2014. Þar var fólk beðið um að gera ýmsa hluti eins og stelpa. Flestir brugðust við með því að gera hlutina á fíflalegan hátt og það er einmitt viðhorfið sem er alltof áberandi í boltaíþróttum. Boðskapurinn er sá að ef þú ert að gera hlutina eins og stelpa, haltu því áfram. 




8. febrúar 2015

Hið óvænta

Það er nauðsynlegt að framkvæma sjálfsmat endrum og eins og velta fyrir sér þeim hlutum sem maður vill sjá breytast hjá sjálfum sér. Allir hafa tileinkað sér margar venjur, bæði góðar sem og slæmar, og því er nauðsynlegt að spyrja sjálfan sig að því hvaða venjur eru slæmar og hvað maður getur sjálfur gert til þess að breyta þeim og vera þar með ánægðari með sjálfan sig?

Þegar ég lagðist í sjálfsmat fyrir nokkru síðan fannst mér ég vera alltof passívur, þ.e. ég hugsaði alltof mikið út í hlutina áður en ég framkvæmdi þá: ,,Hverjar eru mögulega niðurstöður? Hvað svo? Hvernig á ég eiginlega að gera þetta? Hvað ef þetta klikkar? o.s.frv." voru spurningar sem ég spurði mig vanalega áður en ég hafði mig í hlutina. Ef mér líkaði ekki svörin sem ég fékk við þessum spurningum bakkaði ég einfaldlega út úr þeim og framkvæmdi þá ekki.


Það kannast flestir við hugtakið "Comfort Zone" eða "Þægindarammi". Skilgreiningin á hugtakinu er á þessa vegu: 

,,Þægindiramminn er sálfræðilegt ástand þar sem maður finnur fyrir vellíðan, stjórn á aðstæðum og lágmarks áhyggjum. Einstaklingur í þessu ástandi notar takmarkaða hegðun til þess að skila stöðugri frammistöðu, yfirleitt án þess að finna fyrir áhættu."

Ég var staddur á mjög þæginlegum stað í þessum tiltekna ramma og var alltaf í fullkominni stjórn á aðstæðum og þar með vissi ég alltaf hver útkoman á hlutunum yrði. 

Þegar ég áttaði mig á þessu vissi ég strax að það væri lykilatriði að gera skjóta breytingu á þessu og koma mér út úr þessum ramma. Lífið snýst ekki um að vita alltaf niðustöðuna á hlutunum og að hafa allt undir fullkominni stjórn. Fegurð lífsins fellst í þessu óvænta - þegar maður sjokkerar sjálfan sig og gerir hluti sem maður átti fyrirfram ekki von á að maður gæti gert.
Að segja já við hlutum sem maður telur sig ekki geta gert er stór þáttur í því að þróa sjálfan sig. Maður tekur engum framförum ef maður er alltaf í sama farinu og veit hverjar niðurstöðurnar verða.

Hvatvísi er að mínu mati einn besti eiginleiki sem að hægt er að búa yfir. Að stökkva á hluti þegar þeir bjóðast manni á maður von á tveimur niðurstöðum: Maður gerir mistök sem eru ekkert annað en jákvæð reynsla eða hlutirnir ganga upp. Báðar niðurstöður eru af jákvæðum toga og því þarf maður öllu heldur að spyrja sig "Afhverju ekki?" fremur en "Afhverju?".
Það eru mjög margir sem standa í þessum sömu sporum og ég stóð í og ofhugsa hlutina. Ofhugsun drepur hamingjuna í lífinu og gerir lífið ekki spennandi.


Það er undir hverjum og einum komið hverju þeir vilja breyta og bæta og þegar þú metur sjálfan þig þá færðu svar við því hverju þú vilt kippa í liðinn til þess að njóta lífsins enn meira en þú gerir nú þegar. Ég tel að hvatvísi spili stóra rullu í því að lifa hamingjusömu lífi og maður getur upplifað hluti og fengið reynslu sem maður myndir aldrei gera ef dvölin inn í "Þægindarammanum" lengist.

Ég var með allt steypt í fast mót. Ég var kominn inn í flottan skóla í Bretlandi í þriggja ára nám og vissi 100% hvað ég ætlaði að gera að námi loknu og var með þetta allt kortlagt. Á ögurstundu setti ég skólann á hold, fór að vinna við það sem ég elska að gera og skráði mig nú í sjálfboðastarf í Suður/Mið-Ameríku næsta haust í 4 mánuði. Með hvatvísina að leiðarljósi finnst mér líf mitt, sem áður fyrr var nokkuð einhæft, vera miklu meira spennandi og ég mæli eindregið með því að fólk velti því fyrir sér hvaða breytingar það vill sjá á sínum háttum og sínu lífi til þess að fanga fegurð lífsins - það óvænta.

Henry Ford sagði:

,,If you always do what you’ve always done, you’ll always get what you’ve always got.” 

Ef þú gerir alltaf það sem þú hefur gert áður, færðu alltaf sömu niðurstöðuna. Þetta eru rosalega einföld orð og mjög "basic" en þau hafa virkilega djúpa merkingu og það býr mikil viska á bakvið þau. 

Fegurð lífsins er ekki fólgin í því að vita alltaf niðurstöðuna fyrirfram og að hafa svör við öllu, heldur að grípa tækifærin sem að lífið býður upp á og taka því óvænta með opnum örmum. Ekki ofhugsa - framkvæmdu.

-Bjarki Már Ólafsson


27. janúar 2015

Að hægja á tímanum

Tíminn er furðulegt fyrirbæri. Hann færist á ógnarhraða áfram og það er ómögulegt að stoppa hann eða hægja á honum. Eftir því sem ég verð eldri finnst mér hraðinn vera aukast, dagarnir og vikurnar renna í eitt og tíminn líða alltof hratt. Hvað orskar þennan gífurlega hraða?

Maður er alltaf á leiðinni einhvert og að fara að gera eitthvað. Vera mættur þangað klukkan þetta, fara fyrst þangað og síðan eitthvað annað. Alltaf á hlaupum.
Við gleymum að hægja á okkur, njóta og upplifa. Kröfurnar sem maður bæði setur á sjálfan sig og aðrir setja á mann eru miklar og maður eyðir öllum sínum kröftum í það að uppfylla þessar kröfur.

Við lifum á tímum þar sem  að við erum svo heppin að tæknin er með því móti að við getum fylgst með nánast öllu því sem fer fram í heiminum. Bæði í lífi vina okkar og því sem er að gerast í útlöndum með stanslausum fréttaflutningi. Við fylgjumst svo vel með öllu því sem er í gangi í kringum okkur að við gleymum oft á tíðum að hugsa um það sem að skiptir mestu máli – maður sjálfur.
Með tilkomu forrita eins og Instagram, Snapchat, Facebook, Twitter ofl. deiliru bæði upplifunum og pælingum með netheiminum og fylgist með öllu því sem þú kærir þig um að fylgjast með. Það sem angrar mig hvað mest við þessi forrit er hvað maður er háður þeim. Það er alltof oft sem maður fer í hlutlausann gír, sekkur sér á kaf í áður nefnda samfélagsmiðla og zone-ar út. Maður refreshar öll feed sem maður kemst í og tíminn flýgur áfram á meðan maður horfir á heiminn í gegnum skjáinn. Það er engin furða að tíminn líði eins hratt og raun ber vitni þegar að loksins þegar maður hefur stunda aflögu þá er síminn tekinn upp, eða kveikt á tölvunni, og maður dettur í hlutlausan.

Ég settist niður á bar á föstudagskvöldið með æskuvini mínum sem ég hafði ekki hitt í þó nokkurn tíma. Við spjölluðum saman í góðan tíma áður en að fjórar bandarískar konur settust á næsta borð. Um leið og þær settust tóku þær allar upp símann, sögðu ekki orð við hvor aðra og flettu í gegnum Facebook news feedið og flissuðu öðru hvoru. Einu samskiptin sem þær áttu voru þegar þær voru að bera það undir hvor aðra hvernig hinir og þessir filterar kæmu út á Instagram mynd sem þær voru að setja inn af vinkonuhópnum sem hafði ferðast alla leið til Íslands. Við veltum því þá fyrir okkur hvort þessi ferð þeirra væri einungis til þess að geta sagst hafa komið til Íslands, tekið myndir af sér á Íslandi og þar með gert sjálfan sig meira spennandi eða var þessi ferð hugsuð sem vinkonuferð til þess að upplifa alls hins besta sem Ísland hefur uppá að bjóða?
Það sem gleymist er að líta upp úr símanum, njóta augnabliksins og upplifa.



Fyrir rúmu ári síðan fór ég á kaf í hugleiðslu. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að hugleiðsla getur leitt ekki einungis til betri heilsu og skýrari hugsunar – heldur einnig til bættrar tilfinningagreindar.  Ég settist niður og tók mér 20 mínútur á hverju kvöldi þar sem ég hugleiddi. Þetta gerði ótrúlega mikið fyrir mig og með tímanum jókst tæknin og færnin. Með hugleiðslu náði ég betri einbeittingu, mér leið almennt mun betur, ég tók miklum framförum bæði í skóla og fótboltanum og ég varð talsvert minna stressaður. Í þessar 20 mínútur var ég ekki á leiðinni neitt, ég var ekki að hugsa um neitt. Ég var bara einn með sjálfum mér. Ég kúplaði mig út úr öllu umhverfinu, öllum kröfunum og öllum hraðanum og það fór að hægjast á tímanum. Í stað þess að eyða þessum 20 mínútum í hlutlausa gírnum fyrir framan tölvuskjáinn eða í símanum, höfðu þessar sömu 20 mínútur ótvíræð áhrif á líf mitt.
Fyrir þá sem ekki hafa kynnt sér hugleiðslu þá mæli ég eindregið með því.
http://yoganonymous.com/benefits-of-meditation-10-scientifically-proven-facts/

Við megum ekki  gleyma að rækta hausinn á okkur þar sem að stærsti hluti lífins fer fram þar – í minningum, ímyndunum, vangaveltum og túlkunum.  Ef þú vilt breyta lífi þínu þarftu að byrja á því að gera breytingar á hausnum.

Flestir hljóta að óska sér fleirri sekúndna, mínútna, klukkustunda, daga og ára í þessu lífi. Í stað þess að vera alltaf á hlaupum og á fullri ferð, í stað þess að þurfa alltaf að skoða það sem er í gangi einhvers staðar annars staðar og í stað þess að setja óþarfa kröfur - Stoppum, ræktum okkur og eyðum tíma með sjálfum okkur og hugsunum okkar.
Lítum upp úr símunum og njótum þess sem er í kringum okkur.


- Bjarki Már Ólafsson




11. janúar 2015

Árangur

Eitt af mínum helstu áhugamálum er árangur. Ég hef lengi velt fyrir mér spurningunum "Hvað er árangur?" og "Hvernig nær maður árangri?"
Þessar spurningar hefur æ oftar komið upp í huga mér og hef ég tekist að þróa með mér þá skoðun hvað teljist til árangurs, hver grundvöllur árangurs sé og hvaða þættir skipta sköpum til þess að árangur náist.
Reynsla, skoðanaskipti og leit af svörum (til reyndra og árangursríkra einstaklinga, lestri bóka ofl.) spila stærstan þátt í mótun þessarrar skoðunnar minnar. Ég tel mig ekki vera neinn sérfræðing á þessu sviði, en einhverra hluta vegna er ég haldinn þráhyggju fyrir því að komast að endanlegri niðurstöðu á því hvað veldur árangri.

Spurningin "Hvað er árangur?" er spurning sem ég tel að hver og einn þurfi að svara fyrir sig, hvað hver og einn metur til árangurs. Ein af mínum helstu fyrirmyndum í íþróttaþjálfun, John Wooden, velti þessari spurningu fyrir sér allan sinn feril og skilgreindi árangur eftir bestu getu á þennan hátt:
,, Árangur er hugarró sem orsakast af stolti. Stolti sem þú færð þegar að þú veist að þú gerðir þitt besta til þess að verða eins góður og þú mögulega gast" 
Mér finnst þessi skilgreining vera algjör snilld og tek ég undir hana. Árangur er huglægur, ekki hlutlægur. Hann mælist ekki í titlum, stórum tölum á bankareikning eða flottum bílum. Árangur snýst um þessa persónulegu sigra - að gera sitt allra besta og geta litið stoltur til baka.
"Ég vildi að ég hefði getað gert betur.."
"Ég hefði átt að gera hitt en ekki þetta...."
Þetta eru hugsanir sem að bergmála í hugum þeirra sem ekki ná árangri.

John Wooden var með þetta allt í teskeið

Spurninging "Hvernig nær maður árangri?" er öllu fjölþættari en sú fyrri.
Ég hef reynt eftir bestu getu að velta því fyrir mér hver grundvöllurinn fyrir árangri sé sem og því hvaða þættir þurfi að vera til staðar til þess að árangur náist.

Ég tel að grundvöllurinn fyrir árangri sé "að gera það sem þú elskar að gera". 
Það eru alltof margir sem að finna sér ekki tíma til þess þar sem að aðrir hlutir þvælast fyrir. Settu það sem þú hefur ástríðu fyrir í forgang í lífinu.
Ef þú ert óhamingjusamur/söm á veginum sem þú stendur á í lífinu, hvort sem um ræðir vinnu, nám eða íþróttir - beygðu þá af honum og finndu þér veg sem að liggur að þeim áfangastað sem þú vilt komast á.
Við eigum bara þetta eina líf og það er til einskis að eyða því í að gera hluti sem við höfum ekki ástríðu fyrir því að gera.
Gerðu það sem þú elskar að gera og finndu leið til þess að gera það.
Ef þú hefur ástríðu fyrir því að gera eitthvað þá er það sífellt í huga þér, þú ert tilbúinn að verja miklum tíma í að gera það og þú munt leggja þig allan fram og þar með uppskera árangur.

Grundvöllurinn er fyrsti þátturinn, og síðan fylgja eftir fjórir þættir sem skipta sköpun til þess að árangur náist.
  • Traust og trú á sjálfum sér. - Treystu öllum ákvörðunum sem þú tekur og hafðu trú á öllu sem þú gerir. Ef þú hvorki treystir né trúir því sem að þú ert að gera, hver ætti þá að gera það?
  • Að njóta alls þess sem að þú gerir. - Allt sem þú gerir er reynsla. Þú þarft að njóta hvers augnabliks í lífinu. Að læra af  öllu því slæma og vera þakklátur fyrir allt það góða sem á vegi þínum verður.
  • Að setja sér markmið. - Af eigin reynslu og því sem ég hef lesið mig til um þá spilar markmiðasetning gífurlega stóran þátt í árangri. Að vita hvert þú stefnir og hvernig þú ætlar að komast þangað skiptir öllu máli. Það eru alltof margir sem rúnta um án þess að vita hvert leiðin liggur og þegar að tankurinn tæmist þá hefur leiðin einfaldlega legið í hringi.
    Hugsaðu þér í hvaða sporum þú vilt standa í eftir ár, 5 ár, 10 ár og kortlegðu leiðina.
  • Að bregðast við mótlæti. - Það hvernig einstaklingur bregst við mótlæti skiptir gífurlega miklu máli. Við verðum öll fyrir áföllum á lífsleiðinni og þurfum öll að komast yfir hindranir til þess að komast þangað sem við viljum komast. Sjálfsvorkun er hugarástand sem hindrar það að árangur náist.
    Ég er þakklátur fyrir það mótlæti sem ég hef mætt þar sem að það hefur mótað mig og styrkt mig.Alveg sama hvað kemur fyrir, þá hefur maður alltaf valdið til þess að ákveða það hvernig maður bregst við og tekur á hlutunum. Ég get ekki sagt að ég sé mjög trúaður einstaklingur en hins vegar er mikil viska í æðruleysisbæninni sem hægt er að finna í Biblíunni og hef ég hana bakvið eyrað. Þar segir: ,,Guð - gef mér æðruleysi, til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og visku til þess að greina þar á milli."


Að gera það sem maður elskar að gera skiptir sköpum


-Bjarki Már Ólafsson


7. janúar 2015

Áramótaheit

Gleðilegt nýtt ár!

Árið 2014 var eitthvað það lærdómsríkasta sem ég hef upplifað. Það voru margir frábærir hlutir sem komu fyrir sem og aragrúi af mistökum sem eru ómetanleg. Það er algengur misskilningur að álíta mistök neikvæðum augum. Mistök eru af hinu góða. Þau þýða það að maður hafi prófað nýja hluti, stigið út fyrir þægindarammann og prófað eitthvað nýtt.
Mistök eru ekkert annað en ómetanleg reynsla og maður á að þakka fyrir þau þar sem að maður lærir, þroskast og mótast af þeim.
Sá sem gerir enginn mistök, þorir ekki að takast á við nýjar áskoranir og verður fyrir vikið ekki eins vel í stakk búinn og sá sem gerir þau. Verstu "mistökin" sem maður gerir er að þora ekki að gera mistök.

Ég ákvað í fyrsta skipti að strengja mér áramótaheit sem skorar að einhverju leyti á mig og er krefjandi.
Áramótaheitið mitt var semsagt það að fara ótroðnar slóðir í hverjum mánuði og gera eitthvað sem ég hef aldrei prófað að gera áður.
Ég hef aldrei haldið úti bloggi eða deilt skoðunum mínum og pælingum af einhverju viti með umheiminum og því fannst mér kjörið að byrja árið á því að opna þessa síðu.
Það verður ekkert ákveðið þema eða regla á því hvenær ég skrifa inn á síðuna, heldur skrifa ég bara um það sem mér dettur í hug þegar mér dettur í hug að gera það.

Ég er sannfærður um það að árið 2015 verður frábært og atburðarríkt. Það verður stútfullt af mistökum og tækifærum og maður þarf að taka þeim með opnum örmum.

Ég vona það að árið þitt hafi verið lærdómsríkt og óska þér velfarnaðar á nýju ári!

-Bjarki Már