27. febrúar 2017



Öll eigum við okkur drauma.
Öll höfum við átt drauma.
Öll munum við eiga drauma.

Með aldrinum og umhverfinu breytast draumarnir og oft gleymast þeir.
Hugmyndir um framtíðina og bernskudraumar eru að jafnaði glæstir og allir ætla að blómstra og láta rætast úr öllum sínum draumum.
Sex ára einstaklingur sér engar hindranir á vegi sínum í átt að draumunum og engum dirfist til að sannfæra hann um að setja markið lægra. Barnið þarf ekki að líta rökréttum augum á hlutina né láta sér detta það til hugar að draumar þess, hversu stórir sem þeir megi virðast, verði ekki að veruleika.

En hvað gerist svo?

Með aldrinum sannfærum við okkur sjálf um að draumar okkar eru einungis "draumar" og að raunveruleikinn er mun alvarlegri og erfiðari en við gerðum okkur grein fyrir.
Við sannfærum okkur um að við eigum ekki að eiga okkur of háleita drauma því þeir geti valdið skaða í formi vonbrigða.
Við sannfærum okkur um að við þurfum að setja draumana til hliðar þangað til að einhvers konar ástandsbreytingar eigi sér stað.

 ,,Fyrst þarf ég að eignast pening.."
,,Þegar ég verð eldri..."

Við sannfærum okkur um það að draumarnir verði ekki að veruleika nema í einhverri annarri tilvist og þeir eigi einungis heima í hugarheimi okkar og hvergi annars staðar. Og Guð bjargi okkur frá því að ræða stóru draumana okkar við annað fólk - það gæti talið mann galinn að leyfa sér að vera svo stórhuga.

Vandamálið er einfalt. Á ákveðnum tímapunkti í lífinu, á þeim tímapunkti sem við verðum meðvituð um skoðanir annarra, stinga margir stóru draumunum í rassvasann og labba taktfast í skugganum af öllum þeim sem gera það ekki. Af þeim sem ákveða að láta drauma sína rætast.
Í stað þess að láta drauma sína rætast fylgjast margir með þeim sem gera það með aðdáunaraugum úr fjarska t.d. í símanum, dagblaðinu, sjónvarpinu og velta fyrir sér hugmyndinni um það hvað maður vildi óska þess að standa sjálfur í þessum skrefum - Að upplifa það að sjá draumana rætast.
Í stað þess að láta drauma sína rætast ganga margir um með nagandi samviskubitið ,,ef" sem er örlítið grynnra en jafn sársaukafullt og samviskubitið ,,hefði".
Þessi tvö bitför samviskunnar erta mann og angra alla tíð.
,,Ef" og ,,hefði".

Á þessum sama tímapunkti gleymum við þeirri einföldu lífsreglu að örlögin eru í þínum höndum, þangað til þú sannfærir sjálfan þig um að svo sé ekki.



En það er ekki öll von úti. Þrátt fyrir að draumarnir hafi fengið að bíða og settir einhvers staðar þar sem enginn hvorki sér né heyrir til þeirra þýðir ekki að þeir verði aldrei að veruleika. Síður en svo. 

1. Skilgreindu drauminn


Það fyrsta sem þú þarft að gera er að skilgreina drauminn þinn. Að koma honum í orð. 
Sama hversu órafjarri draumurinn virðist vera á þessu augnabliki skiptir það nákvæmlega engu máli þegar kemur að því að skilgreina hann. Eitt er víst. Einn daginn muntu deyja sem og allir sem eru lifandi á plánetunni í þessum töluðu orðum. Afhverju ekki að gera lífið þitt að stórkostlegri ævintýraför í átt að draumum þínum? Það er ástæða fyrir því að þú finnur fyrir þrá og löngunum - fyrir draumunum. Það er alheimurinn að toga þig í áttina að tilgangi tilvistar þinnar. Skilgreindu drauminn.



2. Dagsettu drauminn


Þegar þú ert búinn að skilgreina drauminn og búinn að fá mynd af honum í hausinn skiptir máli að dagsetja hann. Um leið og þú hefur sett þér raunsæan tímaramma hefur þú tekið stærsta skrefið. Draumur með dagsetningu er markmið. Við megum að sama skapi ekki gleyma því að draumar renna ekki út á dagsetningu. Dagsetningin er tímarammi. Ef þér mistekst að láta drauminn rætast innan þess ramma sem þú settir þér, dragðu djúpt inn andann og reyndu aftur.

3. Búðu til kort


Þegar draumurinn hefur orðið að markmiði skiptir máli að kortleggja leiðina í átt að markmiðinu. Að brjóta markmiðið niður í smærri markmið sem byggja ofan á hvort annað og færa þig á áfangastaðinn. Kortið er leiðarvísirinn og verkfæri sem mikilvægt er að búa sér til. Hins vegar má maður búast við því að villast út af leiðinni á einhverjum tímapunkti, taka óvæntar beygjur og lenda í mótlæti. Leiðin er fjarri því að vera greið og það er mikilvægt að vera meðvitaður og undirbúinn undir það.
Þá er mikilvægt að gleyma ekki draumnum og koma sér aftur inn á sporið.

Tökum dæmi:

Tommi er nýútskrifaður 21 árs einstaklingur sem hefur ekki hugmynd um það hvernig hann á að fóta sig í lífinu eftir að hafa lokið framhaldsskólanámi. Hann vinnur í leikskóla sem hann hefur lítinn áhuga á að gera en hann er meðvitaður um drauminn sem hann hefur átt allt sitt líf. Allt frá því að hann steig fyrst upp í flugvél.

Tomma dreymir um að verða flugstjóri og skilgreinir og dagsetur drauminn. Hann ætlar að fljúga farþegaþotum Icelandair árið 2026, 30 ára gamall. 
Tommi brýtur því markmiðið niður í smærri skref.


Tommi brýtur drauminn niður í smærri markmið og setur tímaramma á hvert og eitt. 
Samhliða þessu undirbúningsferli starfar Tommi sem flugþjónn til þess að sækja sér reynslu úr háloftunum og að kynnast starfi flugmanna betur. Hann nýtir öll tækifæri til þess að spjalla við flugstjórana og fær góð ráð frá þeim.
Mun Tommi láta draum sinn rætast?
Það er ómögulegt að segja til um það, en það eru töluvert mikið meiri líkur á því en ef hann hefði ekki skilgreint, dagsett og brotið niður drauminn.

(Ég hef enga reynslu af flugbransanum veit ekki einu sinni hvort starfsheitin sem ég nota, yfirflugmaður og aðstoðar flugmaður séu viðurkennd, en hvað um það, you get the point..)

4. Skilgreindu aðgerðirnar sem færa þig nær draumnum


Þegar fyrstu þremur skrefunum er lokið hefuru stór aukið líkurnar á því að láta drauma þína rætast. En markmiðin sem þú hefur sett niður á blað geta ekki staðið ein og sér. Þau þurfa aðgerðamarkmið, venjur og gildi sér til stuðnings og það skiptir máli að skilgreina þessa þætti. Venjurnar og gildin eru stoðirnar og stólparnir sem halda uppi stiganum. Aðgerðarmarkmiðin eru viðurinn sem við notum til þess að byggja þrepin (smærri markmiðin) upp í átt að draumnum.


Aftur að Tomma.
Tommi veit að markmiðakortið er ekki nóg eitt og sér og gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að skilgreina aðgerðarmarkmiðin, venjurnar og gildin sem hann þarf að temja sér ætli hann að ná markmiðum sínum. Þvílíkur toppgaur.

Hann setur sér aðgerðarmarkmiðin að lesa tvær bækur á mánuði um flug - fræðilega, tæknilega og aðra þætti.
Samhliða því setur Tommi sér markmiðið að taka að minnsta kosti 10 flugtíma í hverjum mánuði til að þjálfa upp færni sína og safna reynslu.
Hann temur sér góð gildi, skilgreinir þau, býr til hollt venjumynstur sem gagnast honum og færir hann nær markmiðum sínum.

5. Hafðu það sýnilegt


Það eru margir sem setja sér markmið. Enn færri skrifa þau niður. Alltof fáir gera þau sýnileg.
Til þess að ná markmiðunum og að láta drauma okkar rætast þurfum við að minna okkur á eins oft og við mögulega getum. Við þurfum (eins fáránlega og það hljómar) að búa okkur til þráhyggju fyrir draumum okkar og taka allir ákvarðanir út frá því hvort þær færi okkur nær eða fjær draumnum.
Um leið og við minnum okkur á drauma okkar og hvert við viljum stefna í lífinu og látum það ekki gleymast getum við breytt lífi okkar til mikilla muna og stóraukið líkurnar á því að láta drauma okkar rætast.


Skrifaðu draumana niður, hengdu þá upp á vegg í herberginu þínum, settu þá framan á símann þinn og minntu sjálfan þig á þá við öll tækifæri.

Ég óska þess að allir þeir sem lesa þessa grein láti drauma sína rætast sama hversu fjarlægir þeir mega virðast núna. Ég get fullvissað þig um það að með því að fylgja skrefum eitt til fimm færist þú í það minnsta ekki fjær draumum þínum. 
Ef þú býrð yfir verkfærunum til þess að færa þig nær þeim, afhverju ekki að nota sem flest þeirra og sjá hvað gerist?