5. nóvember 2017


Mótlæti er ofnotað hugtak.
Öll vandamálin sem við glímum við, allar óvæntu hindranirnar á beinu og greiðu leiðinni sem við höfðum séð fyrir okkur og öll neikvæðnin sem við mætum skilgreinum við sem mótlæti.
Leiðin í átt að markmiðum þínum og áfangastaðnum er ekki bein og greið. Hún á að vera erfið og krefjast þess að þú takir áhættur og færir fórnir.


“Ef þú ert ekki tilbúinn að taka áhættur muntu ekki þroska og rækta sjálfan þig.
Ef þú ræktar ekki sjálfan þig muntu ekki verða besta útgáfan af sjálfum þér.
Ef þú ert ekki besta útgáfan af sjálfum þér verður þú aldrei hamingjusamur.
Ef þú finnur ekki hamingjuna hver er þá tilgangur lífsins?”


Að taka áhættur og færa fórnir er undir hverjum og einum komið.
Að rækta og þróa sjálfan sig og þar með verða besta mögulega útgáfan af sjálfum sér er persónuleg skylda hvers og eins.

Það dýrmætasta sem við eigum hins vegar er meðvitundin um að örlögin eru í okkar eigin höndum og það er undir okkur sjálfum komið að gera allt sem í valdi okkar stendur til að hafa stjórn á útkomunni í eigin lífi.
Allar þær hindranir sem á vegi okkar verða, öll neikvæðnin sem við mætum og vandamálin sem við glímum við eru ekki mótlæti heldur lykilhluti af ferlinu.
,,Hvernig skilgreini ég mótlæti?" er spurning sem ég tel að hver og einn verði að spyrja sjálfan sig. Eru það þættir sem við getum haft áhrif á og stjórnað? Eða eru það hlutir sem við þurfum að sætta okkur við?

Mín skilgreining á því að mæta mótlæti er að þurfa að sætta sig við orðinn hlut, endurskilgreina markmið sín og tilgang og þannig að færa örlögin aftur í sínar hendur. Að verða þræll fortíðarinnar og að leyfa erfiðleikum gærdagsins að fylgja sér inn í daginn í dag er böl sem ég óska engum.


Ég var 19 ára þegar ég fékk skilaboð um ég þyrfti að leggja fótboltaskóna á hilluna vegna hjartasjúkdóms. Ég þurfti þá að snúa töpuðum leik mér í hag, snúa vörn í sókn og sækja til sigurs. Það var þá sem að ég fyllilega gerði mér grein fyrir því hve mikilvægt það er að maður átti sig á því hverju maður hefur stjórn á.
Ég hafði vissulega litla sem enga stjórn á heilsu hjartans, en ég hafði fulla stjórn á því hvernig ég brást við þessum tíðindum. Ég tók þessu af æðruleysi og snéri mér að þjálfun.
Þar fékk ég enn skýrari mynd af þessu.



Við búum flest við aðstæður þar sem að tækifærin eru á hverri hendi. Börn á Íslandi geta lagt stund á fjöldan allan af tómstundum og fengið framúrskarandi þjálfun og kennslu í hverju því sem þau kjósa að taka sér fyrir hendur.
Eftir tvö ár af þjálfun við bestu mögulegu aðstæður í grasrótarstarfinu á Íslandi, þar sem flest vandamálin voru hvort barnið yrði í A eða B liði á næsta móti, þurfti ég á á nýju umhverfi að halda.
Ég fluttist þá til Kólumbíu þar sem ég bjó og þjálfaði í fátækrahverfinu Ciudad Bolívar í Bogotá. Hverfið er umráðasvæði FARC hryðjuverkasveitarinnar og eitt alræmdasta glæpahverfi Suður Ameríku.

Fíkniefni, glæpir og slagsmál eru allt saman hluti af daglegu lífi barnanna sem þarna búa.
Þau hafa enga stjórn á þeim aðstæðum sem þau fæddust inn í. Þau hafa enga stjórn á skortinum sem þau lifa við og hættunum sem leynast á hverju götuhorni.
En það var alveg sama hversu mörgum börnum ég kynntist í þjálfuninni, þau voru öll meðvituð um eitt: Þau ætluðu að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að bjarga fjölskyldum sínum úr fátækt og koma þeim úr þessum ömurlegu aðstæðum.
Möguleikarnir voru einungis tveir:
1. Með því að gerast fótboltastjörnur sem þýddi að þau yrðu að verja tíu til tólf klukkustundum af fótboltaþjálfun úti á velli hvern einasta dag. Þau mættu aldrei nokkurn tímann missa trúna á því að láta drauminn rætast því uppgjöfin og vantrúin neyddi þau í möguleika tvö.
2. Með því að ganga í gengið, selja fíkniefni og ræna. Það voru skammtímalausnir þar sem þar voru í rauninni einungis tveir áfangastaðir: Dánarbeðið langt fyrir aldur fram eða fangelsið (þar sem sömu örlög biðu þeirra líklegast).


Það er ansi súrrealískt að fara úr því að sannfæra foreldra á Seltjarnarnesi um að barnið þeirra þurfi að leggja harðar að sér á æfingum til að komast í A-liðið yfir í það að slá jónu úr höndunum á tíu ára iðkenda þínum í Ciudad Bolívar. En þetta setti hlutina í samhengi.
Það sem ég lærði í Kólumbíu af þessum krökkum er að það er alveg sama inn í hvaða aðstæður þú fæðist, hvað þú ert með mikið á milli handanna og hversu mörg vandamálin eru.
Á meðan að þú gerir þér grein fyrir því að örlögin eru í þínum höndum...
Á meðan þú sleppir því að lista upp vandamálunum og hindrununum sem á vegi þínum verða sem mótlæti og skilgreinir þessa þætti frekar sem mikilvæg skref þroskaferilsins...
Um leið og þú leggur allt í sölurnar, tekur áhættur og færir fórnir til að verða besta útgáfan af sjálfum þér…

...Þá finnuru hamingjuna.



21. apríl 2017



Öll eigum við góða daga og slæma. Sumar vikur eru betri en aðrar og árstíðirnar eru misjafnar. Stundum líður manni vel og stundum illa. Þegar hlutirnir eru ekki nákvæmlega eins og þeir eiga að vera og tímarnir erfiðir er algengt að sjá ekki fyrir endann á þyngslunum og ímynda sér að hjallinn sé óyfirstíganlegur.


Það sem oft gleymist er að slæmu dagarnir eru jafn mikilvægir og þeir góðu. Þungur veturinn jafn dýrmætur og sólríku sumardagarnir. Þyngslin og erfiðleikarnir þjóna ríkum tilgangi.


Fyrir skömmu síðan rakst ég á Twitter færslu frá rithöfundinum Paulo Coelho þar sem hann sagði að ef maður ætlaði að njóta regnbogans yrði maður fyrst að kunna að meta rigninguna. Ég er hjartanlega sammála Paulo.
Til að njóta sólargeislanna og hlýjunnar sem fylgir vorsólinni verðum við að upplifa haglélið og slorið. Til að líða vel og njóta lífsins verðum við að ganga í gegnum erfiðleika og komast yfir hindranir.
En þrátt fyrir að dagarnir geti verið mis erfiðir og líðan misjöfn getum við alltaf átt hinn fullkomna dag.

"Rigningardagur" getur verið fullkominn dagur. Ég trúi því að með því að hlúa að eftirtöldum þáttum aukist líkurnar á því að maður njóti hvers dags og vakni á morgnana með bros á vör.

Hjarta:


Þegar við ræktum hjartræna þátt heilsunnar fylgjum við hjartanu; Að gera það sem maður elskar að gera, sinna áhugamálum sínum eða verja tíma með þeim sem manni þykir vænst um.
Við þurfum að hlusta á hjartað hvern einasta dag og fylgja því sem það segir. Það er ástæða fyrir því að við finnum fyrir ómældri ánægju af því að gera það sem okkur þykir skemmtilegast að gera og það er ástæða fyrir því að við fellum niður allar grímur og njótum af einlægni þegar við umgöngumst þá sem okkur þykir vænst um. Við þurfum að hlusta, hlúa að og rækta hjartað alla daga.


Hugur:


Hugurinn er hugtak sem nær yfir allar þær hugsanir sem skjótast um í höfðinu allan daginn. Hann er stöðugt á ferð og flugi og hoppar frá einni hugsun yfir á þá næstu en tugþúsundir hugsana skjótast upp í kollinn daglega.
Til að auka gæði þessara hugsana skiptir máli að rækta hugræna þáttinn. Eitt að markmiðum hvers einasta dags er að öðlast aukna þekkingu. Að læra eitthvað nýtt á hverjum degi. Að verða skarpari í dag en ég var í gær. Það eru ótal leiðir til að skerpa á huganum: Að framkvæma og meta, spyrja spurninga, lesa, læra í skólanum og svo framvegis.
Til að eiga hinn fullkomna dag þurfum við að dýpka hugann með aukinni þekkingu og reynslu.


Sál:

“Sálin” er hugtak sem gjarnan er notað til að lýsa því afli innra með okkur sem túlkar hugsanirnar. Sálin stýrir tilfinningum okkar og því hvernig okkur líður. Það gleymist oft að rækta sálina en hún er alveg jafn mikilvægur þáttur og hinir tveir. Hún er það sem skilgreinir okkur - okkar sanna "sjálf".
En hvernig hlúum við að sálinni?
Með því að veita henni athygli og viðurkenningu. Það gerum við til dæmis með hugleiðslu, einlægni í orðum og gjörðum, með því að tjá okkur um líðan okkar og fleira.


Líkami:

Til að eiga hinn fullkomna dag þurfum við að sjálfsögðu að rækta líkamann. Það er skylda okkar að bera virðingu fyrir líkamanum og veita honum athygli alla daga. Með hollri og góðri daglegri hreyfingu, næringu og hvíld ræktum við líkamann og eigum hinn fullkomna dag.

Dagarnir geta verið misgóðir og oft á tíðum mjög erfiðir. En með því að hlúa að þessum lykilþáttum verða dagarnir alltaf "fullkomnir" þrátt fyrir að þeir geti verið misjafnir.


Ég vona innilega að þú eigir hinn fullkomna dag, hvernig sem viðrar.




8. mars 2017



,,Hvað ertu að gera í lífinu?" 
Spurningin sem fyrst ber á góma í samræðum við einstakling sem þú hefur ekki séð síðan í grunnskóla. Eða ættingja sem þú hefur haldið litlu sambandi við undanfarin ár.
Svarið er einnar setningar samantekt á öllu því sem þú ert að fást við og sinna dags daglega.
Stöðu uppfærsla.

Þegar ég starfaði sem þjálfari í Kólumbíu fékk ég þessa spurningu á förnum vegi. Margir ráku upp stór augu þegar hundrað og níutíu sentímetra hvítur einstaklingur ráfaði um fátækrahverfi Bogotá og urðu að svala forvitni sinni og komast að því hvað el gringo var að vilja í "frumskóginn".
Svarið var einfalt: ,,Ég er að halda börnum frá eiturlyfjum og vandræðum götunnar með því að kenna þeim gildi í gegnum fótbolta."
Mér leið virkilega vel með það sem ég var að gera, ég fann fyrir ríkum tilgangi og ég upplifði sjálfan mig sem hluti af einhverju stærra. Ég fann fyrir stolti af því sem ég var að gera í lífinu.


Þegar ég flutti aftur heim og var ráðinn sem þjálfari 2.flokks karla hjá Gróttu varð tilfinningin önnur.
Þegar sama spurning og ég svaraði stoltur út í Kólumbíu skaust upp var svarið alltaf stutt: ,,Ég er bara að þjálfa...En þú?"
Tilgangur vinnunnar var ekki jafn glæsilegur og þegar ég sinnti þjálfun úti í Kólumbíu, stoltið og upplifunin af starfinu var ekki eins og áður fyrr.

Fyrir skömmu síðan kynnti ég mér sögu Lego og hvernig þeim tókst að fara frá því að vera nærri gjaldþrota árið 2004 yfir í að verða eitt af öflugustu fyrirtækjum heimsins.
Yfirskrift fyrirtækisins hafði alltaf verið einföld: Að búa til leikföng fyrir börn.
Þegar fyrirtæki fer úr því að tapa 300 milljónum dollara á ári yfir í að vera eitt öflugasta fyrirtæki heims á einungis tíu árum má áætla að breytingarnar hafi verið drastískar og umsvifamiklar.
Lykillinn að breyttum árangri fyrirtækisins var hins vegar sá að það endurskilgreindi tilgang sinn og skipulagði fyrirtækið út frá þeim tilgangi.

Í stað þess að "búa til leikföng fyrir börn" var ákveðið að skilgreindur tilgangur, markmið og stefna fyrirtækisins yrði:


,,Inspire and develop the builders of tomorrow" 
,,Our ultimate purpose it to inspire and develop children to think creatively, reason systematically and release their potential to shape their own future - experiencing the endless human possibility." (Lego.com) 
(Ég leyfi mér að hafa þetta á ensku þar sem þýðingin yrði alltof pínleg...)

Með breyttri sýn og með breyttum tilgangi fóru hlutirnir að ganga betur.

Ég áætla að flestir geri sér grein fyrir mikilvægi þess innan fyrirtækja að skilgreina framtíðarsýnina, stefnuna og tilganginn. Þetta eru jú grunnstoðir fyrirtækja og grundvöllur fyrir árangri - og oft forsenda viðsnúnings líkt og þess sem Lego sýndi.
En þá spyr ég mig? Hvernig skilgreinum við það sem við erum að fást við í lífinu? Hvernig skilgreinum við tilgang okkar í starfi, námi og því sem við gerum dags daglega?


Þegar ég hóf störf í Gróttu var tilveran ekki eins spennandi og hún hafði verið í Kólumbíu. Tilgangur starfsins var ekki eins glæstur og stoltið, sem hafði einkennt dvöl mína í Bogota, var ekki lengur til staðar. Ég var bara að þjálfa.

Líkt og Lego má segja að ég hafi verið á barmi gjaldþrots - tilfinningalegs gjaldþrots. Það var því mikilvægt að fara sömu leið og þeir og endurskilgreina tilgang starfsins.
Eftir miklar vangaveltur er ég sannfærður um ýmislegt:

Ég er ekki bara að þjálfa. Ég er að skipuleggja hápunkt dagsins hjá mér og leikmönnum mínum. Ég er að kenna drengjum á mikilvægum aldri að tileinka sér gildi sem þeir geta tekið með sér út í lífið. Ég er að hjálpa leikmönnum mínum að færast nær markmiðum sínum. Ég er að kenna, leiðbeina og miðla með það að markmiði að strákarnir skili sér út í samfélagið sem betri einstaklingar. Ég er ekki bara að þjálfa.

Eftir að ég endurskilgreindi tilgang vinnunnar tók ég eftir því að krafturinn, áhuginn og ástríðan stórjókst. Hver einasta æfing varð hluti af einhverju svo miklu stærra og ánægjan eftir hverja æfingu, leik eða fund, er nú engu lík.

Með breyttri sýn og með breyttum tilgangi eru hlutirnir að ganga betur.

Það er svo mikilvægt að skilgreina tilgang sinn og velta hlutunum fyrir sér. Að sannfæra sjálfan þig um að starfið, námið eða hvað sem þú ert að fást við er hluti af einhverju stærra og meira og þjóni góðum og ríkum tilgangi getur gjörbreytt viðhorfi þínu til lífsins.

Þetta hefur reynst mér gífurlega vel og hjálpað mér ríkulega við að gera viðmótið til lífsins betra. Þá spyr ég þig; Hvernig skilgreinir þú tilganginn á bakvið þitt daglega amstur?





27. febrúar 2017



Öll eigum við okkur drauma.
Öll höfum við átt drauma.
Öll munum við eiga drauma.

Með aldrinum og umhverfinu breytast draumarnir og oft gleymast þeir.
Hugmyndir um framtíðina og bernskudraumar eru að jafnaði glæstir og allir ætla að blómstra og láta rætast úr öllum sínum draumum.
Sex ára einstaklingur sér engar hindranir á vegi sínum í átt að draumunum og engum dirfist til að sannfæra hann um að setja markið lægra. Barnið þarf ekki að líta rökréttum augum á hlutina né láta sér detta það til hugar að draumar þess, hversu stórir sem þeir megi virðast, verði ekki að veruleika.

En hvað gerist svo?

Með aldrinum sannfærum við okkur sjálf um að draumar okkar eru einungis "draumar" og að raunveruleikinn er mun alvarlegri og erfiðari en við gerðum okkur grein fyrir.
Við sannfærum okkur um að við eigum ekki að eiga okkur of háleita drauma því þeir geti valdið skaða í formi vonbrigða.
Við sannfærum okkur um að við þurfum að setja draumana til hliðar þangað til að einhvers konar ástandsbreytingar eigi sér stað.

 ,,Fyrst þarf ég að eignast pening.."
,,Þegar ég verð eldri..."

Við sannfærum okkur um það að draumarnir verði ekki að veruleika nema í einhverri annarri tilvist og þeir eigi einungis heima í hugarheimi okkar og hvergi annars staðar. Og Guð bjargi okkur frá því að ræða stóru draumana okkar við annað fólk - það gæti talið mann galinn að leyfa sér að vera svo stórhuga.

Vandamálið er einfalt. Á ákveðnum tímapunkti í lífinu, á þeim tímapunkti sem við verðum meðvituð um skoðanir annarra, stinga margir stóru draumunum í rassvasann og labba taktfast í skugganum af öllum þeim sem gera það ekki. Af þeim sem ákveða að láta drauma sína rætast.
Í stað þess að láta drauma sína rætast fylgjast margir með þeim sem gera það með aðdáunaraugum úr fjarska t.d. í símanum, dagblaðinu, sjónvarpinu og velta fyrir sér hugmyndinni um það hvað maður vildi óska þess að standa sjálfur í þessum skrefum - Að upplifa það að sjá draumana rætast.
Í stað þess að láta drauma sína rætast ganga margir um með nagandi samviskubitið ,,ef" sem er örlítið grynnra en jafn sársaukafullt og samviskubitið ,,hefði".
Þessi tvö bitför samviskunnar erta mann og angra alla tíð.
,,Ef" og ,,hefði".

Á þessum sama tímapunkti gleymum við þeirri einföldu lífsreglu að örlögin eru í þínum höndum, þangað til þú sannfærir sjálfan þig um að svo sé ekki.



En það er ekki öll von úti. Þrátt fyrir að draumarnir hafi fengið að bíða og settir einhvers staðar þar sem enginn hvorki sér né heyrir til þeirra þýðir ekki að þeir verði aldrei að veruleika. Síður en svo. 

1. Skilgreindu drauminn


Það fyrsta sem þú þarft að gera er að skilgreina drauminn þinn. Að koma honum í orð. 
Sama hversu órafjarri draumurinn virðist vera á þessu augnabliki skiptir það nákvæmlega engu máli þegar kemur að því að skilgreina hann. Eitt er víst. Einn daginn muntu deyja sem og allir sem eru lifandi á plánetunni í þessum töluðu orðum. Afhverju ekki að gera lífið þitt að stórkostlegri ævintýraför í átt að draumum þínum? Það er ástæða fyrir því að þú finnur fyrir þrá og löngunum - fyrir draumunum. Það er alheimurinn að toga þig í áttina að tilgangi tilvistar þinnar. Skilgreindu drauminn.



2. Dagsettu drauminn


Þegar þú ert búinn að skilgreina drauminn og búinn að fá mynd af honum í hausinn skiptir máli að dagsetja hann. Um leið og þú hefur sett þér raunsæan tímaramma hefur þú tekið stærsta skrefið. Draumur með dagsetningu er markmið. Við megum að sama skapi ekki gleyma því að draumar renna ekki út á dagsetningu. Dagsetningin er tímarammi. Ef þér mistekst að láta drauminn rætast innan þess ramma sem þú settir þér, dragðu djúpt inn andann og reyndu aftur.

3. Búðu til kort


Þegar draumurinn hefur orðið að markmiði skiptir máli að kortleggja leiðina í átt að markmiðinu. Að brjóta markmiðið niður í smærri markmið sem byggja ofan á hvort annað og færa þig á áfangastaðinn. Kortið er leiðarvísirinn og verkfæri sem mikilvægt er að búa sér til. Hins vegar má maður búast við því að villast út af leiðinni á einhverjum tímapunkti, taka óvæntar beygjur og lenda í mótlæti. Leiðin er fjarri því að vera greið og það er mikilvægt að vera meðvitaður og undirbúinn undir það.
Þá er mikilvægt að gleyma ekki draumnum og koma sér aftur inn á sporið.

Tökum dæmi:

Tommi er nýútskrifaður 21 árs einstaklingur sem hefur ekki hugmynd um það hvernig hann á að fóta sig í lífinu eftir að hafa lokið framhaldsskólanámi. Hann vinnur í leikskóla sem hann hefur lítinn áhuga á að gera en hann er meðvitaður um drauminn sem hann hefur átt allt sitt líf. Allt frá því að hann steig fyrst upp í flugvél.

Tomma dreymir um að verða flugstjóri og skilgreinir og dagsetur drauminn. Hann ætlar að fljúga farþegaþotum Icelandair árið 2026, 30 ára gamall. 
Tommi brýtur því markmiðið niður í smærri skref.


Tommi brýtur drauminn niður í smærri markmið og setur tímaramma á hvert og eitt. 
Samhliða þessu undirbúningsferli starfar Tommi sem flugþjónn til þess að sækja sér reynslu úr háloftunum og að kynnast starfi flugmanna betur. Hann nýtir öll tækifæri til þess að spjalla við flugstjórana og fær góð ráð frá þeim.
Mun Tommi láta draum sinn rætast?
Það er ómögulegt að segja til um það, en það eru töluvert mikið meiri líkur á því en ef hann hefði ekki skilgreint, dagsett og brotið niður drauminn.

(Ég hef enga reynslu af flugbransanum veit ekki einu sinni hvort starfsheitin sem ég nota, yfirflugmaður og aðstoðar flugmaður séu viðurkennd, en hvað um það, you get the point..)

4. Skilgreindu aðgerðirnar sem færa þig nær draumnum


Þegar fyrstu þremur skrefunum er lokið hefuru stór aukið líkurnar á því að láta drauma þína rætast. En markmiðin sem þú hefur sett niður á blað geta ekki staðið ein og sér. Þau þurfa aðgerðamarkmið, venjur og gildi sér til stuðnings og það skiptir máli að skilgreina þessa þætti. Venjurnar og gildin eru stoðirnar og stólparnir sem halda uppi stiganum. Aðgerðarmarkmiðin eru viðurinn sem við notum til þess að byggja þrepin (smærri markmiðin) upp í átt að draumnum.


Aftur að Tomma.
Tommi veit að markmiðakortið er ekki nóg eitt og sér og gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að skilgreina aðgerðarmarkmiðin, venjurnar og gildin sem hann þarf að temja sér ætli hann að ná markmiðum sínum. Þvílíkur toppgaur.

Hann setur sér aðgerðarmarkmiðin að lesa tvær bækur á mánuði um flug - fræðilega, tæknilega og aðra þætti.
Samhliða því setur Tommi sér markmiðið að taka að minnsta kosti 10 flugtíma í hverjum mánuði til að þjálfa upp færni sína og safna reynslu.
Hann temur sér góð gildi, skilgreinir þau, býr til hollt venjumynstur sem gagnast honum og færir hann nær markmiðum sínum.

5. Hafðu það sýnilegt


Það eru margir sem setja sér markmið. Enn færri skrifa þau niður. Alltof fáir gera þau sýnileg.
Til þess að ná markmiðunum og að láta drauma okkar rætast þurfum við að minna okkur á eins oft og við mögulega getum. Við þurfum (eins fáránlega og það hljómar) að búa okkur til þráhyggju fyrir draumum okkar og taka allir ákvarðanir út frá því hvort þær færi okkur nær eða fjær draumnum.
Um leið og við minnum okkur á drauma okkar og hvert við viljum stefna í lífinu og látum það ekki gleymast getum við breytt lífi okkar til mikilla muna og stóraukið líkurnar á því að láta drauma okkar rætast.


Skrifaðu draumana niður, hengdu þá upp á vegg í herberginu þínum, settu þá framan á símann þinn og minntu sjálfan þig á þá við öll tækifæri.

Ég óska þess að allir þeir sem lesa þessa grein láti drauma sína rætast sama hversu fjarlægir þeir mega virðast núna. Ég get fullvissað þig um það að með því að fylgja skrefum eitt til fimm færist þú í það minnsta ekki fjær draumum þínum. 
Ef þú býrð yfir verkfærunum til þess að færa þig nær þeim, afhverju ekki að nota sem flest þeirra og sjá hvað gerist?