8. febrúar 2015

Hið óvænta

Það er nauðsynlegt að framkvæma sjálfsmat endrum og eins og velta fyrir sér þeim hlutum sem maður vill sjá breytast hjá sjálfum sér. Allir hafa tileinkað sér margar venjur, bæði góðar sem og slæmar, og því er nauðsynlegt að spyrja sjálfan sig að því hvaða venjur eru slæmar og hvað maður getur sjálfur gert til þess að breyta þeim og vera þar með ánægðari með sjálfan sig?

Þegar ég lagðist í sjálfsmat fyrir nokkru síðan fannst mér ég vera alltof passívur, þ.e. ég hugsaði alltof mikið út í hlutina áður en ég framkvæmdi þá: ,,Hverjar eru mögulega niðurstöður? Hvað svo? Hvernig á ég eiginlega að gera þetta? Hvað ef þetta klikkar? o.s.frv." voru spurningar sem ég spurði mig vanalega áður en ég hafði mig í hlutina. Ef mér líkaði ekki svörin sem ég fékk við þessum spurningum bakkaði ég einfaldlega út úr þeim og framkvæmdi þá ekki.


Það kannast flestir við hugtakið "Comfort Zone" eða "Þægindarammi". Skilgreiningin á hugtakinu er á þessa vegu: 

,,Þægindiramminn er sálfræðilegt ástand þar sem maður finnur fyrir vellíðan, stjórn á aðstæðum og lágmarks áhyggjum. Einstaklingur í þessu ástandi notar takmarkaða hegðun til þess að skila stöðugri frammistöðu, yfirleitt án þess að finna fyrir áhættu."

Ég var staddur á mjög þæginlegum stað í þessum tiltekna ramma og var alltaf í fullkominni stjórn á aðstæðum og þar með vissi ég alltaf hver útkoman á hlutunum yrði. 

Þegar ég áttaði mig á þessu vissi ég strax að það væri lykilatriði að gera skjóta breytingu á þessu og koma mér út úr þessum ramma. Lífið snýst ekki um að vita alltaf niðustöðuna á hlutunum og að hafa allt undir fullkominni stjórn. Fegurð lífsins fellst í þessu óvænta - þegar maður sjokkerar sjálfan sig og gerir hluti sem maður átti fyrirfram ekki von á að maður gæti gert.
Að segja já við hlutum sem maður telur sig ekki geta gert er stór þáttur í því að þróa sjálfan sig. Maður tekur engum framförum ef maður er alltaf í sama farinu og veit hverjar niðurstöðurnar verða.

Hvatvísi er að mínu mati einn besti eiginleiki sem að hægt er að búa yfir. Að stökkva á hluti þegar þeir bjóðast manni á maður von á tveimur niðurstöðum: Maður gerir mistök sem eru ekkert annað en jákvæð reynsla eða hlutirnir ganga upp. Báðar niðurstöður eru af jákvæðum toga og því þarf maður öllu heldur að spyrja sig "Afhverju ekki?" fremur en "Afhverju?".
Það eru mjög margir sem standa í þessum sömu sporum og ég stóð í og ofhugsa hlutina. Ofhugsun drepur hamingjuna í lífinu og gerir lífið ekki spennandi.


Það er undir hverjum og einum komið hverju þeir vilja breyta og bæta og þegar þú metur sjálfan þig þá færðu svar við því hverju þú vilt kippa í liðinn til þess að njóta lífsins enn meira en þú gerir nú þegar. Ég tel að hvatvísi spili stóra rullu í því að lifa hamingjusömu lífi og maður getur upplifað hluti og fengið reynslu sem maður myndir aldrei gera ef dvölin inn í "Þægindarammanum" lengist.

Ég var með allt steypt í fast mót. Ég var kominn inn í flottan skóla í Bretlandi í þriggja ára nám og vissi 100% hvað ég ætlaði að gera að námi loknu og var með þetta allt kortlagt. Á ögurstundu setti ég skólann á hold, fór að vinna við það sem ég elska að gera og skráði mig nú í sjálfboðastarf í Suður/Mið-Ameríku næsta haust í 4 mánuði. Með hvatvísina að leiðarljósi finnst mér líf mitt, sem áður fyrr var nokkuð einhæft, vera miklu meira spennandi og ég mæli eindregið með því að fólk velti því fyrir sér hvaða breytingar það vill sjá á sínum háttum og sínu lífi til þess að fanga fegurð lífsins - það óvænta.

Henry Ford sagði:

,,If you always do what you’ve always done, you’ll always get what you’ve always got.” 

Ef þú gerir alltaf það sem þú hefur gert áður, færðu alltaf sömu niðurstöðuna. Þetta eru rosalega einföld orð og mjög "basic" en þau hafa virkilega djúpa merkingu og það býr mikil viska á bakvið þau. 

Fegurð lífsins er ekki fólgin í því að vita alltaf niðurstöðuna fyrirfram og að hafa svör við öllu, heldur að grípa tækifærin sem að lífið býður upp á og taka því óvænta með opnum örmum. Ekki ofhugsa - framkvæmdu.

-Bjarki Már Ólafsson


Engin ummæli:

Skrifa ummæli