1. mars 2015

Að láta lífið fara til spillis


Ég rakst á þetta ljóð um daginn og það fékk mig virkilega til þess að hugsa og pæla í hlutunum. Ég veit ekki hversu oft ég hef sagt setningar eins og: ,,Ég get ekki beðið eftir næstu helgi.." ... ,,Ég hata mánudaga.."... ,,Ég get ekki beðið eftir sumrinu.." og fleira í þeim dúr.
Alltof stór hluti lífsins fer í það að bíða með eftirvæntingu eftir einhverju öðru og meira en því sem er í gangi á líðandi stundu. Með stanslausri bið gleymir maður því að njóta augnabliksins og því má segja að maður gleymi á vissan hátt að lifa lífinu. Þetta er 100% ómeðvitað en hvað veldur þessu? 
Við förum að álíta lífið og umhverfið sem sjálfsagðan hlut.

Ástæðan fyrir því að mér finnst skemmtilegast að þjálfa og starfa í kringum unga krakka er einmitt það hvað þau eru þakklát fyrir umhverfið og lífið og hvað það þarf lítið til þess að gleðja þau. 
Ég horfði á fyrirlestur á TED um daginn þar sem að Neil Pasricha fjallaði um "The 3 A's Of Awesome" Eitt A-ið, awareness eða vitund, fjallar einmitt um það hvernig börn upplifa lífið og hvað hægt er að læra af þeim. Ástæðan fyrir því að að börnin eru svona hamingjusöm og glöð þegar að það byrjar til dæmis að snjóa er að þau eru laus við allar áhyggjur. Fullorðinn einstaklingur verður í flestum tilvikum pirraður yfir snjónum því að hann þýðir kuldi, gluggasköfun og hæg umferð. Á meðan eru börn oft að sjá hlutina í fyrsta skipti og líta þar með ekki á þá sem sjálfsagða heldur verða þau öllu heldur spennt og njóta litlu hlutanna í lífinu eins og snjókomunni.
Einhvers staðar á lífsleiðinni hafa margir gleymt barninu innra með sér og farið að líta á hlutina sem sjálfsagða. Eins og Neil Pasricha segir í fyrirlestrinum sínum þurfum við að finna barnið innra með okkur, því þetta sama barn og var spennt fyrir öllu saman þegar að það sá hlutina í fyrsta skipti er sami einstaklingur og þú ert í dag.

Mindfullness eða gjörhygli fjallar einmitt um það að einbeita sér að líðandi stundu. Allir búa yfir þessum eiginleika en í mismiklu mæli. Hægt er að þjálfa hann upp á einfaldan hátt með til dæmis æfingum og hugleiðslu. Ég mæli eindregið með því að kynna sér þetta nánar með því að lesa sig til um og síðan æfa upp þennan eiginleika til þess að njóta augnabliksins og lífsins enn frekar. 

Það eru litlu augnablikin og litlu hlutirnir sem saman mynda þetta stóra líf. Að njóta þess að gera hlutina á sama hátt og þegar að þú gerðir þá í fyrsta skipti er undirstaða þess að lifa hamingjusömu og áhyggjulausu lífi. Að lifa í stanlausri eftirvæntingu og bið eftir einhverju öðru verður einungis til þess að þegar að sá tími sem þú beiðst eftir rennur upp þá hefst bið og eftirvænting eftir einhverju öðru. Þessi stanslausi vítahringur, boðsskapur ljóðsins í upphafi pistilsins, veldur því að við gleymum því að lifa lífinu til fulls.
Eins og góður maður sagði að ef að þú hatar mánudaga, þá hatarðu 1/7 af ævi þinni, sem er alltof stór hluti til þess að láta fara til spillis.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli